Heimskringla/Magnúss saga góða/36

Úr Wikiheimild

Magnús konungur réð þá bæði fyrir Danmörk og Noregi. En eftir það er hann hafði eignast Danaveldi þá gerði hann sendimenn vestur til Englands. Fóru þeir á fund Játvarðar konungs og fluttu honum bréf og innsigli Magnúss konungs.

En það stóð á bréfum með kveðjusending Magnúss konungs:

Þér munuð spurt hafa einkamál þau er vér Hörða-Knútur gerðum með oss að hvor okkar sem lifði eftir annan sonlaus þá skyldi sá taka lönd og þegna, þau er hinn hafði átt. Nú er það svo orðið, sem eg veit að þér hafið spurt, að eg hefi tekið allt Danaveldi í arf eftir Hörða-Knút. Hann átti þá er hann andaðist engum mun síður England en Danmörk. Köllumst eg nú eiga England eftir réttum máldögum. Vil eg að þú gefir upp ríki fyrir mér en að öðrum kosti mun eg sækja til með styrk hers bæði af Danaveldi og Noregi. Mun þá sá ráða löndum er sigurs verður auðið.