Fara í innihald

Heimskringla/Magnúss saga góða/35

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Magnúss saga góða
Höfundur: Snorri Sturluson
35. Frá orustum Magnúss konungs


Magnús konungur sat þann vetur í Danmörk og var þá góður friður. Hann hafði átt í Danmörk orustur margar og haft í öllum sigur.

Oddur Kíkinaskáld segir svo:

Vas fyr Mikjálsmessu
málmgrimm háið rimma.
Féllu Vindr en vöndust
vopnhljóði mjög þjóðir.
En fyr jól var önnur,
óhlítuleg, lítlu.
Upp hófst grimm með gumnum
gunnr fyr Árós sunnan.

Enn segir Arnór:

Hefnir, fenguð yrkisefni,
Ólafs. Gervi eg slíkt að málum.
Hlakkar lætr þú hrælög drekka
hauka. Nú mun kvæðið aukast.
Fjórar hefir þú, randa rýrir
reyrar setrs, á einum vetri,
allvaldr, ertu ofvægr kallaðr,
örva hríðir frækn um gervar.

Þrjár orustur átti Magnús konungur við Svein Úlfsson.

Svo segir Þjóðólfur:

Háðist heilli góðu
hildr sem Magnús vildi.
Selr um sigr að þylja
sóknstærir mér færi.
Brand rauð buðlungr Þrænda.
Ber íðula síðan
hann eft hervíg þrennin
hærra skjöld að gjöldum.