Fara í innihald

Heimskringla/Magnúss saga góða/7

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Magnúss saga góða
Höfundur: Snorri Sturluson
7. Frá Ástríði drottningu


Ástríður drottning er átt hafði Ólafur konungur hinn helgi kom í Noreg með Magnúsi konungi stjúpsyni sínum og var með honum í góðu yfirlæti sem vert var. Þá kom og til hirðarinnar Álfhildur móðir Magnúss konungs. Tók konungur hana þegar með hinum mestum kærleikum og setti hana vegsamlega.

En Álfhildi varð sem mörgum kann verða, þeim er fá ríkdóminn, að henni aflaðist eigi seinna metnaðurinn svo að henni líkaði illa það er Ástríður drottning var nokkuru meira metin en hún í sessi eða annarri þjónustu. Vildi Álfhildur sitja nær konungi en Ástríður kallaði hana ambátt sína svo sem fyrr hafði verið þá er Ástríður var drottning yfir Noregi þá er Ólafur konungur réð landi. Vildi Ástríður fyrir engan mun eiga sess við Álfhildi. Máttu þær ekki í einu herbergi vera.

Sighvatur skáld hafði farið til Rúms þá er orusta var á Stiklastöðum. En er hann var sunnan á leið spurði hann fall Ólafs konungs. Var honum það hinn mesti harmur. Hann kvað þá:

Stóð eg á mont og minntumst,
mörg hvar sundr flaug targa
breið og brynjur síðar,
borgum nær um morgun.
Mundi eg, þann er undi
öndverðan brum löndum,
faðir minn var þar þenna,
Þóröðr, konung, forðum.

Sighvatur gekk einn dag um þorp nokkuð og heyrði að einnhver húsbóndi veinaði mjög er hann hafði misst konu sinnar, barði á brjóst sér og reif klæði af sér, grét mjög, segir að hann vildi gjarna deyja.

Sighvatur kvað:

Fúss læst maðr, ef missir
meyjar faðms, að deyja.
Keypt er ást, ef eftir
oflátinn skal gráta.
En fullhugi fellir
flóttstyggr, sá er varð dróttin,
vort torrek líst verra,
vígtár, konungs árum.