Heimskringla/Magnúss saga góða/6

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Eftir um vorið bauð hvortveggi konunganna leiðangri út og fóru þau orð um að þeir mundu til orustu leggja við Elfi. En er hvortveggi herinn sótti mjög til móts við annan þá gerðu lendir menn njósn úr hvorutveggja liði til frænda sinna og vina og fylgdi það orðsending hvorratveggju að menn skyldu gera frið milli konunganna. En fyrir því að konungar voru báðir bernskir og ungir þá höfðu landráð fyrir þeim ríkismenn, þeir er til þess voru teknir í hvorutveggja landi. Kom þá svo að sáttarstefna var lögð milli konunga.

Síðan fundust þeir sjálfir og var þá rætt um sættir og kom það í sáttmál að konungarnir svörðust í bræðralag og settu frið milli sín meðan beggja þeirra líf væri en ef annar hvor þeirra andaðist sonlaus þá skyldi sá er eftir lifði taka eftir hann lönd og þegna. Tólf menn þeir er ágætastir voru af hvoru ríkinu svörðu þar til með konungunum að þessi sætt skyldi haldast meðan nokkur þeirra lifði. Skildust þá konungarnir og fór hvortveggi heim í sitt ríki og hélst þessi sátt meðan þeir lifðu.