Heimskringla/Magnúss saga góða/5

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Magnús konungur fór um haustið allt austur til landsenda og var hann til konungs tekinn um allt land og varð allt landsfólk því fegið er Magnús var konungur orðinn.

Það sama haust andaðist Knútur hinn ríki í Englandi Idus Novembris. Hann var jarðaður í Vincestur. Þá hafði hann verið konungur yfir Danmörk sjö vetur og tuttugu en bæði og yfir Englandi fjóra vetur og tuttugu en þar með yfir Noregi sjö vetur. Þá var til konungs tekinn á Englandi Haraldur sonur Knúts. Þann sama vetur andaðist Sveinn Alfífuson í Danmörk.

Þjóðólfur kvað svo um Magnús konung:

Aur spornuðuð, arnar
ilrjóðr, af Svíþjóðu.
Herr fylgdi þér, harri,
hraustr í Noreg austan.
Flýði Sveinn, en síðan,
sannráðinn frá láði,
erlendis frá eg undan
Alfífu son drífa.

Bjarni Gullbrárskáld orti um Kálf Árnason:

Hafa léstu unga jöfra
erfð, sem til réð hverfa.
Satt er, að sitja knátti
Sveinn að Danmörk einni.
Kennduð, Kálfr, til landa
kappfúsum Magnúsi,
olluð þér því er stillir
jörð um fékk, úr Görðum.

Magnús konungur var þann vetur yfir Noregi en Hörða-Knútur yfir Danmörk.