Heimskringla/Magnúss saga góða/4

Úr Wikiheimild

Sveinn konungur Alfífuson var þá staddur á Sunn-Hörðalandi er hann spurði hersögu þessa. Lét hann þegar skera upp herör og senda fjögurra vegna frá sér, stefndi til sín bóndafólki og lét það fylgja að úti skyldi vera almenningur að liði og skipum og verja land með honum. Lið það allt er þannug var næst konungi sótti á fund hans.

Átti konungur þá þing og tal við bændur og bar upp erindi sín, sagði svo að hann vill halda til móts við Magnús konung, son Ólafs konungs, og halda við hann orustu ef bændur vilja fylgja honum. Mælti konungur heldur skammt. Bændur gerðu lítinn róm að máli hans.

Síðan töluðu danskir höfðingjar, þeir er með konungi voru, langar tölur og snjallar en bændur svöruðu og töluðu í mót. Sögðu margir að þeir vildu fylgja Sveini konungi og berjast með honum en sumir neittu. Sumir þögðu með öllu, sumir sögðu svo að þeir mundu leita á fund Magnúss konungs þegar er þeir næðu.

Þá svarar Sveinn konungur: „Svo líst mér sem hér sé komið fátt bóndafólk, það er vér höfum orð send. En þessir bændur er hér eru segja sjálfum oss að þeir vilja fylgja Magnúsi konungi, þá sýnist mér sem oss muni allir einir til liðsemdar og hinir er segja að kyrrir vilji vera, slíkt sama þeir er þegja um. En hinir er segja að oss muni fylgja, þá mun sá annar hver eða fleiri er oss mun ekki tiltak vera ef vér leggjum til orustu við Magnús konung. Er það mitt ráð að vér leggjum oss ekki á trúnað þessa bónda, förum heldur þannug er oss er fólk allt tryggt og trútt. Höfum vér þar gnógan styrk að vinna undir oss land þetta.“

En þegar er konungur hafði þenna úrskurð veitt þá fylgdu allir hans menn þessu ráði. Snúa þeir þá um stöfnum og drógu segl sín. Sigldi Sveinn konugur þá austur með landi og létti eigi fyrr en hann kom til Danmarkar. Var honum þar vel fagnað. En er hann hitti Hörða-Knút bróður sinn þá bauð hann Sveini konungi að hafa þar ríki með sér í Danmörk og þekktist Sveinn það.