Heimskringla/Magnússona saga/11

Úr Wikiheimild

Baldvini konungur gerði veislu fagra Sigurði konungi og liði miklu með honum. Þá gaf Baldvini konungur Sigurði konungi marga helga dóma og þá var tekinn spánn af krossinum helga að ráði Baldvina konungs og patríarka og sóru þeir báðir að helgum dómi að þetta tré var af hinum helga krossi er guð sjálfur var píndur á. Síðan var sá heilagur dómur gefinn Sigurði konungi með því að hann sór áður, og tólf menn aðrir með honum, að hann skyldi fremja kristni með öllum mætti sínum og koma í land erkibiskupsstóli ef hann mætti og að krossinn skyldi þar vera sem hinn helgi Ólafur konungur hvíldi og hann skyldi tíund fremja og sjálfur gera.

Sigurður konungur fór síðan til skipa sinna í Akursborg. Þá bjó og Baldvini konungur her sinn að fara til Sýrlands til borgar þeirrar er Sæt heitir. Sú borg var heiðin. Til þeirrar ferðar réðst Sigurður konungur með honum. Og þá er þeir konungarnir höfðu litla hríð setið um borgina gáfust heiðnir menn upp og eignuðust konungarnir borgina en liðsmenn annað herfang. Sigurður konungur gaf Baldvina konungi alla borgina.

Svo segir Halldór skvaldri:

Borg heiðna tókstu, bræðir
benja tíkr, af ríki,
háðist hver við prýði
hildr, en gafst af mildi.

Einar Skúlason segir og hér frá:

Sætt frá eg Dæla drottin,
drengr minnist þess, vinna.
Tóku hvasst í Hristar
hríð valslöngur ríða.
Sterkr braut válegt virki
vals munnlituðr Gunnar.
Fögr ruðust sverð en sigri
snjallr bragningr hlaut fagna.

Eftir það fór Sigurður konungur til skipa sinna og bjóst brott af Jórsalalandi. Þeir sigldu norður til eyjar þeirrar er Kýpur heitir og dvaldist Sigurður konungur þar nokkura hríð, fór síðan til Grikklands og lagði öllu liðinu út við Engilsnes og lá þar hálfan mánuð og var hvern dag hraðbyri norður eftir hafinu. En hann vildi bíða þess byrjar er þverskytningur væri og seglum mætti aka að endilöngu skipi því að öll segl hans voru sett pellum, bæði það er fram vissi og aftur, fyrir því að hvorirtveggju, frambyggjar eða þeir er aftar voru, vildu eigi sjá hið ófegra seglanna.