Fara í innihald

Heimskringla/Magnússona saga/15

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Magnússona saga
Höfundur: Snorri Sturluson
15. Frá Eysteini konungi


Eysteinn konungur gerði orð hinum vitrustum mönnum til Jamtalands og hinum mestum, bauð þeim til sín en fagnaði öllum er komu með blíðu mikilli og leiddi brott með vingjöfum en teygði þá svo til vináttu við sig. En er þeir vöndust margir að fara til hans og þágu gjafir hans, en sumum sendi hann gjafir þeim er eigi komu þar, þá kom hann sér í fullkomna vináttu við alla þá menn er réðu fyrir landinu.

Síðan talaði hann fyrir þeim og sagði að Jamtur höfðu það illa gert er þeir höfðu snúist í brott frá Noregskonungum í hlýðni eða í skattgjöfum, tók þar til máls er Jamtur höfðu gengið undir ríki Hákonar konungs Aðalsteinsfóstra og verið síðan lengi undir Noregskonungum, innti og það hversu mörg þarfindi þeir máttu hafa af Noregi eða hversu mikill ómaki þeim væri að sækja til Svíakonungs það er þeir þurftu. Og kom hann svo sínum ræðum að Jamtur sjálfir buðu honum og báðu hann að þeir vildu snúast til hlýðni við Eystein konung og kölluðu það þurft sína og nauðsyn. Dró svo saman þeirra félagsskap að Jamtur gáfu land allt undir ríki Eysteins konungs. Tóku fyrst til þessa máls ríkismenn þar trúnaðareiða af öllu fólkinu. Síðan fóru þeir til Eysteins konungs og sóru honum land og hefir það haldist jafnan síðan. Vann Eysteinn konungur Jamtaland með viti en eigi með áhlaupum sem sumir hans langfeðgar.