Heimskringla/Magnússona saga/16

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Eysteinn konungur var maður hinn fríðasti sýnum, bláeygur og nokkuð opineygur, bleikhár og hrokkinhár, ekki hár meðalmaður, spekingur að viti, að öllu fróður, lögum og dæmum og mannfræði, ráðsnjallur og orðspakur og hinn snjallasti, manna glaðastur og lítillátastur, hugþekkur og ástsæll allri alþýðu. Hann átti Ingibjörgu dóttur Guttorms Steigar-Þórissonar. Þeirra dóttir hét María er síðan átti Guðbrandur Skafhöggsson.