Heimskringla/Magnússona saga/19

Úr Wikiheimild

Búandi ríkur er nefndur Ólafur í Dali, auðigur maður. Hann bjó í Aumorð í Dali mikla. Hann átti tvö börn. Sonur hans hét Hákon faukur en Borghildur dóttir hans. Hún var kvinna fríðust og vitur kona og fróð mjög. Þau Ólafur og börn hans voru lengi um veturinn í Borg og var Borghildur jafnan á tali við konung og mæltu menn allmisjafnt um vináttu þeirra.

En eftir um sumarið fór Eysteinn konungur norður í land en Sigurður fór austur og annan vetur eftir var Sigurður konungur austur í landi. Hann sat löngum í Konungahellu og efldi mjög þann kaupstað. Þar gerði hann kastala mikinn og lét grafa um díki mikið. Hann var ger af torfi og grjóti. Hann lét húsa í kastalanum. Hann lét gera þar kirkju. Kross hinn helga lét hann vera í Konungahellu og hélt í því eigi eiða sína er hann sór á Jórsalalandi en hann framdi tíund og flest allt annað það er hann hafði svarið. En það er hann setti krossinn austur við landsenda hugði hann það vera mundu alls lands gæslu. En það varð að hinu mesta óráði að setja þann helgan dóm svo mjög undir vald heiðinna manna sem síðan reyndist.

Borghildur Ólafsdóttir heyrði þann kvitt að menn illmæltu þau Eystein konung um tal sitt og vináttu. Þá fór hún til Borgar og fastaði þar til járns og bar járn fyrir mál þetta og varð vel skír.

En er þetta spurði Sigurður konungur þá reið hann það á einum degi, er miklar voru tvær dagleiðir, og kom fram í Dali að Ólafs, var þar um nótt. Þá tók hann Borghildi frillutaki og hafði hana brott með sér. Þeirra sonur var Magnús. Hann var brátt brott sendur til fósturs norður á Hálogaland í Bjarkey til Víðkunns Jónssonar og fæddist hann þar upp. Magnús var allra manna fríðastur og bráðger á vöxt og afl.