Heimskringla/Magnússona saga/24

Úr Wikiheimild

Nikulás Danakonungur Sveinsson fékk síðan Margrétar dóttur Inga er fyrr hafði átt Magnús konungur berfættur og hét sonur þeirra Nikuláss Magnús hinn sterki.

Nikulás konungur sendi orð Sigurði konungi Jórsalafara og bað hann veita sér lið og styrk allan af sínu ríki og fara með Nikulási konungi austur fyrir Svíaveldi til Smálanda að kristna þar fólk því að þeir er þar byggðu héldu ekki kristni þótt sumir hefðu við kristni tekið. Var þann tíma víða í Svíaveldi mart fólk heiðið og mart illa kristið því að þá voru nokkurir þeir konungar er kristni köstuðu og héldu upp blótum, svo sem gerði Blót-Sveinn eða síðan Eiríkur hinn ársæli.

Sigurður konungur hét ferð sinni og gerðu konungar stefnulag sitt í Eyrarsundi. Síðan bauð Sigurður konungur almenningi út af öllum Noregi, bæði að liði og að skipum. En er saman kom her sá þá hafði hann vel þrjú hundruð skipa.

Nikulás konungur kom fyrr miklu til stefnunnar og beið þar lengi. Þá kurruðu Danir illa og sögðu að Norðmenn mundu ekki koma. Síðan rufu þeir leiðangurinn. Fór konungur brott og allur herinn.

Síðan kom Sigurður konungur þar og líkaði honum illa, héldu þá austur í Svimrarós og áttu þar húsþing og talaði Sigurður konungur um lausyrði Nikuláss konungs og kom það ásamt að þeir skyldu nokkuð hervirki gera í landi hans fyrir þessar sakir. Þeir tóku upp þorp það er heitir Tumaþorp og skammt liggur frá Lundi og héldu síðan austur til kaupbæjar þess er heitir Kalmarnar og herjuðu þar og svo á Smálöndum og lögðu vistagjald á Smálönd, fimmtán hundruð nauta, og tóku Smálendingar við kristni. Síðan venti Sigurður konungur aftur herinum og kom í sitt ríki með mörgum stórum gersemum og fjárhlutum er hann hafði aflað í þeirri ferð og var þessi leiðangur kallaður Kalmarnaleiðangur. Það var sumri fyrr en myrkur hið mikla. Þenna einn leiðangur reri Sigurður konungur meðan hann var konungur.