Heimskringla/Magnússona saga/23

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Eysteinn konungur lét gera skip mikið í Niðarósi. Það var gert að vexti og með hætti eftir því sem Ormur hinn langi hafði verið er Ólafur Tryggvason hafði gera látið. Var þar og drekahöfuð á fram en krókur á aftur og hvorttveggja gullbúið. Skip var borðmikið en stafnarnir þóttu nokkuru minni en best bæri. Hann lét og gera þar í Niðarósi naust bæði svo stór að afrek var í og ger með hinum bestum föngum og smíðuð ágæta vel.

Eysteinn konungur var á veislu á Stim á Hússtöðum. Þar fékk hann bráðasótt þá er hann leiddi til bana. Hann andaðist fjórða Kalendas Septembris og var lík hans flutt norður til Kaupangs og er hann þar jarðaður í Kristskirkju. Og er það mál manna að yfir einskis manns líki hafi svo margur maður í Noregi jafnhryggur staðið sem Eysteins konungs síðan er andaður var Magnús konungur, sonur Ólafs hins helga konungs.

Eysteinn var konungur tuttugu vetur að Noregi. En eftir andlát Eysteins konungs var Sigurður einn konungur í landi meðan hann lifði.