Heimskringla/Magnússona saga/28

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Þá er Sigurður konungur var eitt sinn úti á skipum og lögðu þeir í höfn og kaupskip nokkuð hjá þeim, Íslandsfar. Haraldur gilli var í fyrirrúmi á konungsskipi en næst honum fram frá lá Sveinn Hrímhildarson. Hann var sonur Knúts Sveinssonar af Jaðri. Sigurður Sigurðarson var lendur maður ágætur. Hann stýrði þar skipi.

Það var einn fagran veðurdag, var heitt skin, fóru menn á sund margir bæði af langskipum og af kaupskipinu. Íslenskur maður einn, sá er á sundi var, henti gaman að því að færa niður þá menn er verr voru syndir. Menn hlógu að því. Sigurður konungur sá það og heyrði. Síðan kastaði hann af sér klæðum og hleypur á sundið og lagðist að Íslendingi, grípur hann og færði í kaf og hélt niðri og þegar annað sinn er Íslendingur kom upp færði konungur hann niður og hvert sinn eftir annað.

Þá mælti Sigurður Sigurðarson: „Skulum vér konung láta deyða manninn?“

Maður segir að engi var allfús til að fara.

Sigurður mælti: „Verða mundi maður til ef Dagur Eilífsson væri hér.“

Sigurður hljóp síðan fyrir borðið og lagðist til konungs, tók til hans og mælti: „Týn eigi manninum. Sjá nú allir að þú ert miklu betur syndur.“

Konungur mælti: „Lát mig lausan Sigurður. Eg skal bana honum. Hann vill kefja menn vora.“

Sigurður svarar: „Við skulum nú leika fyrst en þú Íslendingur leita til lands.“

Hann gerði svo en konungur lét Sigurð lausan og lagðist til skips síns. Svo fór og Sigurður. En konungur mælti, bað Sigurð eigi verða svo djarfan að koma í augsýn sér. Það var sagt Sigurði og gekk hann upp á land.