Fara í innihald

Heimskringla/Magnússona saga/29

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Magnússona saga
Höfundur: Snorri Sturluson
29. Frá Haraldi og Sveini Hrímhildarsyni


Um kveldið þá er menn fóru að sofa léku sumir menn uppi á landi. Haraldur var í leikinum en bað svein sinn fara út á skip og búa hvílu sína og bíða sín þar. Sveinninn gerði svo. Konungur var sofa farinn. En er sveininum þótti lengjast þá lagðist hann upp í rúmið Haralds.

Sveinn Hrímhildarson mælti: „Skömm mikil er að fara til þess heiman frá búum sínum dugandismönnum að draga hér knapa upp jafnhátt sér.“

Sveinninn svarar, segir að Haraldur vísaði honum þangað.

Sveinn Hrímhildarson mælti: „Oss þykir engi ofgæðakostur í að Haraldur liggi hér þótt hann dragi eigi hér þræla og stafkarla“ og grípur hann upp riðvöl og laust í höfuð sveininum svo að blóð féll um hann.

Sveinninn hljóp þegar upp á land og segir Haraldi hvað í var orðið. Haraldur gekk þegar á skip út og aftur í fyrirrúmið. Hann hjó með handöxi til Sveins og veitti honum sár mikið á hendi. Gekk Haraldur þegar á land upp. Sveinn hljóp upp á land eftir honum. Drifu þá til frændur Sveins og tóku Harald höndum og ætluðu að hengja hann. En er þeir bjuggu þar um þá gekk Sigurður Sigurðarson út á skipið Sigurðar konungs og vakti hann.

En er konungur brá augum í sundur og kenndi Sigurð mælti hann: „Fyrir þetta sama skaltu deyja er þú komst í augsýn mér því að eg bannaði þér það“ og hljóp konungur upp.

Sigurður mælti: „Kostur er þér þess konungur þegar þú vilt en aðrar sýslur eru nú fyrst skyldri. Far sem skjótast máttu upp á land og hjálp Haraldi bróður þínum. Rygir vilja nú hengja hann.“

Þá mælti konungur: „Guð gæti nú til, Sigurður. Kalla lúðursveininn, lát blása liðinu upp eftir mér.“

Konungur hljóp upp á land en allir er hann kenndu fylgdu honum og þar til er gálginn var búinn. Tók hann þegar Harald til sín en allt fólk þusti þegar til konungs með alvæpni er lúður hafði við kveðið. Þá sagði konungur að Sveinn og allir hans félagar skyldu útlagir fara en við bæn allra manna fékkst það af konungi að þeir skyldu hafa landsvist og eignir sínar en sárið bótalaust.

Þá spurði Sigurður Sigurðarson ef konungur vildi að hann færi þá í brott.

„Það vil eg eigi,“ segir konungur, „aldrei má eg þín án vera.“