Heimskringla/Magnússona saga/31

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Ungan mann nokkurn, danskan að öðli, tóku heiðnir menn og fluttu til Vindlands og höfðu þar í böndum með öðrum herteknum mönnum. Nú var hann um daga í járni einn saman varðveislulaus en um nætur þá var sonur bónda í fjötri með honum, að hann hlypist eigi frá honum. En sá aumi maður beið aldrei svefn né ró fyrir harms sakir og sorga, hugleiddi marga vega hvað til hjálpar væri, kvíddi mjög ánauð og hræddist bæði sult og píslir og vænti engrar afturlausnar af frændum sínum, fyrir því að þeir höfðu tvisvar sinnum áður leystan hann af heiðnum löndum með fjárhlut og þóttist hann því vita að þeim mundi þá þykja bæði mikið fyrir því og kostnaðarsamt að ganga undir hið þriðja sinn. Vel hefir sá maður er eigi bíður slíkt illt þessa heims sem hann þóttist þá beðið hafa.

Nú gerðist honum engi annar til en hlaupast í brott og komast undan ef þess verður auðið. Því næst ræður hann til á náttarþeli og drepur son bónda, höggur af honum fótinn og stefnir svo til skógar með fjötri undan. En um morguninn eftir er lýsti, þá verða þeir varir við og fara eftir honum með hundum tveimur er því voru vanir að spyrja þá upp er undan hljópust, finna hann í skógi þar sem hann lá og leyndist fyrir þeim. Nú taka þeir hann höndum og berja og beysta og leika alls konar illa. Síðan draga þeir hann heim, ljá honum lífs að hvoru nauðula og engrar annarrar miskunnar, draga hann til písla og settu hann þegar í myrkvastofu þar er fyrir voru áður inni sextán, allir kristnir menn, bundu hann þar bæði í járnum og öðrum böndum sem fastast máttu þeir. Svo þótti honum vesöld og píslir þær er fyrr hafði hann haft sem það væri skuggi nokkur þess alls hins illa er fyrr hafði hann haft. Engi maður sá hann augum í þessi prísund, sá er honum bæði miskunnar. Engum manni þótti aumlegt um þann vesaling nema kristnum mönnum er þar lágu bundnir með honum. Þeir hörmuðu og grétu hans mein og sína nauð og ógæfu. Og um dag nokkurn lögðu þeir ráð fyrir hann, báðu að hann hétist hinum helga Ólafi konungi og gæfist til embættismanns og hans dýrðarhúsi ef hann kæmist með guðs miskunn og hans bænum úr þeirri prísund. Nú játaði hann því feginn og gafst þegar til þess staðar sem þeir báðu hann.

Nóttina eftir þá þóttist hann sjá í svefni mann einn, ekki hávan, standa þar hið næsta sér og mæla við sig á þá leið: „Heyrðu hinn aumi maður,“ segir hann, „hví rístu eigi upp?“

Hann segir: „Lávarður minn, hvað manna ertu?“ segir hann.

„Eg em Ólafur konungur er þú kallaðir á.“

„Ó, hó, lávarður minn góður,“ segir hann, „eg vildi feginn upp rísa ef eg mætti en eg ligg járnum bundinn og þó í fjötri með þeim mönnum er hér sitja bundnir.“

Síðan heitir hann á hann og kveður svo að orðum: „Stattu upp skjótt og æðrast ekki um. Víst ertu nú laus.“

Því næst vaknaði hann og sagði þá sínum félögum hvað fyrir hann hafði borið. Síðan báðu þeir hann upp standa og freista ef satt væri. Upp stendur hann og kenndi að hann var laus. Nú sögðu félagar hans aðrir og kváðu það honum fyrir ekki koma mundu, því að hurð var læst utan og innan.

Þá lagði orð til gamall maður er þar sat meinlega haldinn og bað hann ekki tortryggja þessa manns miskunn er hann hafði lausn af fengið „og svo að því mun hann jartegn við þig gert hafa að þú skulir hans miskunnar njóta og héðan laus verða en eigi þér til meiri vesaldar og písla. Nú lát við fimt,“ segir hann, „og leita dura og ef þú mátt út komast, þá ertu hólpinn.“

Svo gerði hann, finnur dyrnar þegar opnar, stekkur út jafnskjótt og brott í skóginn. Þegar þeir urðu varir þessa þá slógu þeir hundum sínum og fóru eftir sem snúðulegast en hann liggur og leynist og sér gerla, vesall karl, hvar þeir fara eftir honum. Nú villast hundar þegar farsins er þeir liðu að honum en þeim öllum villtist sýnin svo að engi maður mátti finna hann og lá hann þar fyrir fótum þeim. Ventu þeir þá heim aftur þaðan og veinuðu mjög og hörmuðu er þeir máttu eigi fá staðið hann.

Ólafur konungur lét honum ekki tortíma er hann var til skógar kominn, gaf honum heyrn og heilsu alla er þeir höfðu áður barið höfuð allt á honum og knosað til þess er hann deyfði. Því næst komst hann á skip með kristnum mönnum tveim, þeim er lengi höfðu þar verið píndir, og neyttu þá allir saman þess farskostar sem ákafast og fluttust þá áleiðis af þeim hlaupstígi. Síðan sótti hann til þess helga manns húss, var þá heill orðinn og herfær.

Þá iðraðist hann sinna heita, gekk á orð sín við þann milda konung og hljópst þá á brott um dag og kom að kveldi til bónda eins, þess er honum veitti herbergi fyrir guðs sakir. Síðan um nóttina er hann var í svefni sá hann meyjar þrjár ganga til sín, fríðar og fagurbúnar, og ortu orða á hann þegar og börðu hann miklum ávítum er hann skyldi svo djarfur gerast að hlaupa frá þeim góða konungi er honum hafði svo mikla miskunn veitt, fyrst er hann leysti hann úr járnum og allri prísund, og firrast þann ljúfa lávarð er hann hafði á hönd gengið.

Því næst vaknaði hann felmsfullur og stóð upp þegar árdegis og sagði húsbúanda en sá góði búandi lét hann engu öðru við koma en venda heim aftur til þess helga staðar. Sá maður ritaði að upphafi þessa jartegn er sjálfur sá manninn og á honum járnastaðinn.