Heimskringla/Magnússona saga/32

Úr Wikiheimild

Sigurður konungur lét svo mjög efla kaupstaðinn í Konungahellu að þá var engi ríkari í Noregi og sat þar löngum til landsgæslu. Hann lét húsa konungsgarð í kastalanum. Hann lagði á öll héruð, þau er í nánd voru kaupstaðinum, og svo á býjarmennina, að á hverjum tólf mánuðum skyldi hver maður níu vetra gamall eða eldri bera til kastalans fimm vopnsteina eða aðra fimm staura og skyldi þá gera hvassa í annan enda og fimm alna háva.

Þar í kastalanum lét Sigurður konungur gera Krosskirkju. Hún var trékirkja og mjög vönduð að efnum og smíð. Þá er Sigurður hafði verið konungur fjóra vetur og tuttugu var vígð Krosskirkja. Þá lét konungur þar vera kross hinn helga og marga aðra helga dóma. Sú var kölluð Kastalakirkja. Þar setti hann fyrir altari tabolu er hann hafði gera látið í Grikklandi. Hún var ger af eiri og silfri og gyllt fagurlega, sett smeltum og gimsteinum. Þar var skrín er Eiríkur eimuni Danakonungur hafði sent Sigurði konungi og plenarium ritinn gullstöfum er patríarki gaf Sigurði konungi.