Heimskringla/Magnússona saga/5

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Eftir það hélt Sigurður konungur liðinu til Lissibónar. Það er borg mikil á Spáni og hálf kristin en hálf heiðin. Þar skilur Spán kristna og Spán heiðna. Eru þau héruð heiðin öll er vestur liggja þaðan. Þar átti Sigurður konungur hina þriðju orustu við heiðna menn og hafði sigur, fékk þar fé mikið.

Svo segir Halldór skvaldri:

Suðr vóst sigr hinn þriðja,
snjallr, við borg þá er kalla,
lofðungs kundr er lenduð,
Lissibón, að fróni.

Þá hélt Sigurður konungur liðinu vestur fyrir Spán heiðna og lagði til borgar þeirrar er kölluð er Alkasse og átti þar fjórðu orustu við heiðna menn og vann borgina, drap þar mart fólk svo að hann eyddi borgina. Þeir fengu þar ófa mikið fé.

Svo segir Halldór skvaldri:

Út frá eg yðr, þar er heitir
Alkasse, styr hvassan,
fólkþeysandi, fýsast
fjórða sinn að vinna

Og enn þetta:

Unnið frá eg í einni
eyddri borg til sorga,
hitti her á flótta,
heiðins vífs, að drífa.