Heimskringla/Magnússona saga/6

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Þá hélt Sigurður konungur fram ferðinni og lagði til Nörvasunda. En í sundunum var fyrir honum víkingaher mikill og lagði konungur til orustu við þá og átti þar hina fimmtu orustu og hafði sigur.

Svo segir Halldór skvaldri:

Treystust ér fyr austan,
yðr tjóði guð, rjóða,
náskári fló, nýra,
Nörvasund, til unda.

Síðan lagði Sigurður konungur herinum fram hið syðra með Serklandi og kom til eyjar þeirrar er kölluð er Forminterra. Þar hafði þá sest her mikill heiðinna blámanna í helli nokkurn og sett fyrir framan hellisdyrnar steinvegg. Þeir herjuðu víða á landið og fluttu til hellisins allt herfang.

Sigurður konungur veitti uppgöngu í þeirri ey og fór til hellisins og var í bergi nokkuru og var hátt að ganga upp í hellinn til steinveggsins en bjargið skútti yfir steinvegginn fram. Heiðingjar vörðu steinvegginn og hræddust ekki vopn þeirra Norðmanna en þeir máttu bera grjót og skot niður undir fætur sér ofan á Norðmenn. Norðmenn réðu og ekki til uppgöngunnar að svo búnu. Þá tóku heiðingjar pell og aðra dýrgripi og báru út á vegginn og skóku að Norðmönnum og æptu á þá og eggjuðu þá og frýðu þeim hugar.

Þá leitaði Sigurður konungur sér ráða. Hann lét taka tvo skipbáta er barkar eru kallaðir og draga upp á bergið yfir hellisdyrnar, og drengja með strengjum digrum allt undir innviðuna og um stafnana. Síðan gengu þar í menn, svo sem rúm hafði, létu þá síga skipin ofan fyrir hellinn með reipum. Þá skutu þeir og grýttu er á skipunum voru svo að heiðingjar hrukku af steinvegginum. Þá gekk Sigurður konungur með herinn upp í bergið undir steinvegginn og brutu vegginn og komust svo upp í hellinn en heiðingjar flýðu inn um steinvegginn þann er settur var um þveran hellinn. Þá lét konungur flytja í hellinn viðu stóra og kasta bál mikið í hellisdurunum og slá eldi í. En heiðingjar, er eldur og reykur sótti þá, þá létu sumir lífið, sumir gengu á vopn Norðmanna en allt fólk var drepið eða brennt. Þar fengu Norðmenn hið mesta herfang, þess er þeir hefðu tekið í þessari ferð.

Svo segir Halldór skvaldri:

Varð fyr stafni
styrjar gjörnum
friðraskaði
Forminterra.
Þar varð eggjar
og eld þola
blámannalið
áðr bana fengi.

Og enn þetta:

Böðstyrkir, léstu barka,
bragnings verk á Serkjum
fræg hafa gerst, fyr gýgjar
gagnstíg ofan síga.
En í hall að helli,
hernenninn, fjölmennum,
Göndlar þings, með gengi,
gný-Þróttr, neðan sóttir.

Enn segir Þórarinn stuttfeldur:

Bað gramr guma
gunnhagr draga
byrvarga á bjarg
blásvarta tvá,
þá er í reipum
ramdýr þrama
sigu fyr hellis
hliðdyr með lið.