Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/11

Úr Wikiheimild

Þrándur gjaldkeri hét maður er stýrði skipi í Inga liði. En þá var svo komið að Inga menn reru á smábátum að þeim mönnum er á sundi voru og drápu hvern er þeir náðu. Sigurður slembidjákn hljóp á kaf af skipi sínu þá er hroðið var og steypti brynjunni af sér í kafi, svam síðan og hafði skjöld yfir sér. En menn nokkurir af skipi Þrándar tóku á sundi mann einn og vildu drepa hann en sá bað sig undan og lést mundu segja þeim hvar Sigurður slembir var en þeir vildu það. En skildir og spjót og menn dauðir og klæði flutu víða hjá skipunum.

„Sjá munuð þér,“ segir hann, „hvar flýtur einn rauður skjöldur. Þar er hann undir.“

Síðan reru þeir þannug og tóku hann og fluttu til skips Þrándar en Þrándur gerði orð Þjóstólfi og Óttari og Ámunda.

Sigurður slembir hafði haft á sér eldsvirki og var fnjóskurinn í valhnotarskurn innan og steypt um utan vaxi. Því er þess getið að það þótti hugkvæmlegt að búa svo um að aldrei vættist.

Því hafði hann skjöld yfir sér er hann svam að þá vissi engi hvort sá skjöldur var eða annar er margir flutu á sænum. Svo sögðu þeir að aldrei mundu þeir hitta hann ef eigi væri þeim sagt til hans. Þá er Þrándur kom til lands með hann þá var sagt liðsmönnum að hann var tekinn. Þá sló ópi á herinn af fagnaðinum.

En er Sigurður heyrði það þá mælti hann: „Margur vondur maður mun hér verða feginn af höfði mínu í dag.“

Þá gekk Þjóstólfur Álason til þar er hann sat og strauk af höfði honum silkihúfu hlöðum búna.

Þá mælti Þjóstólfur: „Hví varstu svo djarfur, þrælssonurinn, að þú þorðir að kallast sonur Magnúss konungs?“

Hann svaraði: „Eigi þarftu jafna föður mínum við þræl því að lítils var þinn faðir verður hjá mínum föður.“

Hallur sonur Þorgeirs læknis Steinssonar var hirðmaður Inga konungs og var viðstaddur þessi tíðindi. Hann sagði Eiríki Oddssyni fyrir en hann reit þessa frásögn. Eiríkur reit bók þá er kölluð er Hryggjarstykki. Í þeirri bók er sagt frá Haraldi gilla og tveimur sonum hans og frá Magnúsi blinda og frá Sigurði slembi allt til dauða þeirra. Eiríkur var vitur maður og var í þenna tíma löngum í Noregi. Suma frásögn reit hann eftir fyrirsögn Hákonar maga, lends manns þeirra Haraldssona. Hákon og synir hans voru í öllum þessum deilum og ráðagerðum. Enn nefnir Eiríkur fleiri menn er honum sögðu frá þessum tíðindum, vitrir og sannreyndir, og voru nær svo að þeir heyrðu eða sáu atburðina, en sumt reit hann eftir sjálfs sín sýn eða heyrn.