Fara í innihald

Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/12

Úr Wikiheimild


Hallur segir svo að höfðingjar vildu drepa hann láta þegar en þeir menn er grimmastir voru og þóttust eiga að reka harma sinna á honum réðu píslum hans og voru til þess nefndir þeir bræður Benteins, Sigurður og Gyrður Kolbeinssynir, og Pétur byrðarsveinn vildi hefna Finns bróður síns en höfðingjar og flest fólk annað gekk frá. Þeir brutu fótleggi hans í sundur með öxarhömrum og handleggi. Þá flettu þeir hann af klæðum og ætluðu flá hann kvikan og klufu svörð í höfði honum. Það máttu þeir eigi gera fyrir blóðrás. Þá tóku þeir svarðsvipur og börðu hann lengi svo að vandlega var öll húðin af svo sem flegin væri. En síðan tóku þeir og skutu stokki á hrygginn svo að sundur gekk. Þá drógu þeir hann til trés og hengdu og hjuggu síðan af höfuðið og drógu brott líkama hans og reyrðu í hreysi nokkuð.

Það er allra manna mál, vina hans og óvina, að engi maður í Noregi hafi verið betur að sér ger um alla hluti en Sigurður í þeirra manna minnum er þá voru uppi en ógæfumaður var hann um suma hluti.

Svo sagði Hallur að hann mælti fátt og svaraði fá þótt menn ortu orða á hann. En það segir Hallur að hann brást aldrei við heldur en þeir lystu á stokk eða á stein. En það lét hann fylgja að það mátti vera um góðan dreng, þann er vel væri að þrek búinn, að svo mætti standast píningar að því, að maður héldi munni sínum eða brygði sér lítt við, en það sagði hann að aldrei brá hann máli sínu og jafnléttmæltur sem þá að hann væri á ölbekk inni, hvorki mælti hann hærra né lægra eða skjálfhendra en sem vandi hans var til. Mælti hann allt til þess er hann andaðist og söng þriðjung úr psalterio [saltara] og lést honum það þykja umfram eljan og styrk annarra manna.

En prestur sá er þar hafði kirkju skammt frá lét lík Sigurðar færa þannug til kirkju. Sá prestur var vinur þeirra Haraldssona. En er þetta spurðist þá köstuðu þeir reiði á hann og létu aftur flytja líkið sem áður hafði verið og varð þó prestur fé fyrir gjalda. En vinir Sigurðar fóru síðan eftir líkinu úr Danmörk sunnan með skip og færðu til Álaborgar og grófu að Maríukirkju þar í býnum. Svo sagði Eiríki Ketill prófastur er varðveitti Maríukirkju að Sigurður væri þar grafinn.

Þjóstólfur Álason lét færa lík Magnúss konungs til Óslóar og grafa að Hallvarðskirkju hjá Sigurði konungi föður hans. Loðin saupruð færðu þeir til Túnsbergs en allt annað lið grófu þeir þar.