Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/2

Úr Wikiheimild

Sigurður slembidjákn sótti norður um Stað og þá er hann kom á Norð-Mæri voru allt komin fyrir honum bréf og jartegnir ráðamanna þeirra, er snúist höfðu undir hlýðni við sonu Haralds konungs og fékk hann þar enga viðurtöku eða uppreist. En með því að hann var sjálfur liðfár þá réðu þeir það að stefna inn í Þrándheim því að hann hafði áður gert orð fyrir sér inn þannug til vina sinna og til vina Magnúss konungs er blindaður hafði verið. En er hann kom til Kaupangs reri hann upp í ána Nið og komu festum á land í konungsgarði og urðu þá undan að leita því að lýður allur stóð í móti. Þeir lögðu síðan til Hólms og tóku þar út úr klaustranum Magnús Sigurðarson af nauðgum munkunum. Hann hafði tekið áður munksvígslu. Sú er fleiri manna sögn að Magnús færi að sjálfs sín vilja þótt þetta væri gert til bótar um hans mál og vænti af þessu sér liðsafla og svo gerðist og gafst. Og var þetta þegar eftir jól. Fóru þeir Sigurður út eftir firðinum.

Síðan sótti eftir þeim Björn Egilsson, Gunnar af Gimsum, Halldór Sigurðarson, Áslákur Hákonarson og þeir bræður, Benedikt og Eiríkur, og hirð sú er verið hafði fyrr með Magnúsi konungi og fjöldi annarra manna. Þeir fóru með flokkinn suður fyrir Mæri og allt fyrir Raumsdalsmynni. Þeir skiptu þar liði sínu og fór Sigurður slembidjákn vestur um haf þegar um veturinn en Magnús fór til Upplanda og vænti sér þar mikils liðs sem hann fékk. Var hann þar um veturinn og um sumarið allt á Upplöndum og hafði þá mikið lið.

En Ingi konungur fór með liði sínu og hittust þeir þar sem heitir í Mynni. Varð þar mikil orusta og hafði Magnús konungur meira lið.

Svo er sagt að Þjóstólfur Álason hafði Inga konung í kiltingu sér meðan orusta var og gekk undir merki og kom Þjóstólfur í mikla nauð af erfiði og atsókn og er það mál manna að þá hafi Ingi fengið vanheilindi það er hann hafði allan aldur síðan og knýtti hrygginn en annar fóturinn var skemmri en annar og svo afllítill að hann var illa gengur meðan hann lifði.

Þá sneri mannfallinu á hendur Magnúss konungs mönnum og féllu þessir í öndurðri fylking: Halldór Sigurðarson og Björn Egilsson, Gunnar af Gimsum og mikill hluti liðs Magnúss áður hann vildi flýja eða undan ríða.

Svo segir Kolli.

Unnuð austr fyr Mynni
oddhríð en brá síðan,
hilmir, fékkstu und hjálmi
hrafns verðar, lið sverðum.

Og enn þetta:

Fyrr lá hans en harri
hringmildr fara vildi
verðung öll á velli,
vígfimr konungr himni.

Magnús flýði þaðan austur á Gautland og þaðan til Danmerkur.

Í þenna tíma var Karl jarl Sónason í Gautlandi. Hann var ríkur og ágjarn. Magnús blindi og hans menn sögðu svo, hvar sem þeir komu fyrir höfðingja, að Noregur mundi liggja laus fyrir ef nokkurir stórir höfðingjar vildu til sækja er engi var konungur yfir landinu og lendra manna forráð var þar yfir ríkinu. En þeir lendir menn, er fyrst voru til forráða teknir, þá var nú hver ósáttur við annan fyrir öfundar sakir. En með því að Karl jarl var ágjarn til ríkis og áhlýðinn um fyrirtölur þá safnar hann liði og ríður austan í Víkina og gekk mart fólk undir hann fyrir hræðslu sakir.

En er þetta spyrja þeir Þjóstólfur Álason og Ámundi þá fóru þeir í móti með því liði er til fékkst og höfðu með sér Inga konung. Þeir hittu Karl jarl og her Gauta austur á Krókaskógi og áttu þar aðra orustu og fékk Ingi konungur sigur. Þar féll Munán Ögmundarson móðurbróðir Karls jarls. Ögmundur faðir Munáns var sonur Orms jarls Eilífssonar og Sigríðar dóttur Finns jarls Árnasonar. Ástríður Ögmundardóttir var móðir Karls jarls. Mart féll á Krókaskógi en jarl flýði austur af skóginum. Ingi konungur rak þá allt austur úr ríki sínu og varð þeirra för hin herfilegsta.

Svo segir Kolli:

Lýsa mun eg hve ljósa,
laut hrafn í ben Gauta,
örn fylldit sig sjaldan,
sárísa rauð vísi.
Goldið varð, þeim er gerðu,
glaumherðöndum sverða,
raun er að ríki þínu,
róg, á Krókaskógi.