Fara í innihald

Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/3

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Saga Inga konungs og bræðra hans
Höfundur: Snorri Sturluson
3. Ferð Eiríks konungs í Noreg


Magnús blindi sótti þá til Danmerkur á fund Eiríks eimuna og fékk hann þar góðar viðtekjur. Bauð hann Eiríki að fylgja honum í Noreg ef Eiríkur vildi leggja undir sig landið og fara með Danaher í Noreg og segir, ef hann kemur með styrk hers, að engi maður í Noregi mun þora að skjóta spjóti í móti honum. En konungur skipaðist við og bauð út leiðangri.

Hann fór með sex hundruð skipa norður í Noreg og var Magnús blindi og hans menn í þessi ferð með Danakonungi. En er þeir komu í Víkina þá fóru þeir til hófs nokkurs með spekt og friði austan fjarðar.

En er þeir komu liðinu til Túnsbergs var þar fyrir safnaður mikill lendra manna Inga konungs. Vatn-Ormur Dagsson bróðir Gregoríusar réð mest fyrir þeim. Þá máttu Danir eigi á land komast og eigi vatn sér taka. Var mart manna drepið af þeim.

Þá lögðu þeir inn eftir firði til Óslóar og var þar fyrir Þjóstólfur Álason. Svo er sagt að þeir vildu láta bera skrín Hallvarðs hins helga úr býnum um aftaninn og gengu svo margir undir sem við máttu komast og fengu þeir eigi lengra borið en utar á kirkjugólfið. En um morguninn er þeir sáu að herinn fór utan að Höfuðey þá báru fjórir menn skrínið upp úr býnum en Þjóstólfur og allt býjarfólkið fylgdi skríninu.