Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/4

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Eiríkur konungur og hans menn sóttu upp í býinn en sumir runnu eftir þeim Þjóstólfi. Þjóstólfur skaut broddi að þeim manni er Áskell hét, hann var stafnbúi Eiríks konungs, og laust undir kverkina svo að yddi út hnakkann og þóttist Þjóstólfur eigi hafa skotið betra skot því að ekki var bert á honum nema það eitt. Skrín hins helga Hallvarðs var flutt upp á Raumaríki og var þar þrjá mánuði. Þjóstólfur fór um Raumaríki og safnaði hann liði um nóttina og kom ofan til býjarins um morguninn.

Eiríkur konungur lét leggja eld í Hallvarðskirkju og víða um býinn og brenndi allt upp með hringum. Því næst kom Þjóstólfur ofan með lið mikið en Eiríkur konungur lagði í brott skipaliði sínu og máttu þeir hvergi á land koma fyrir norðan fjörðinn fyrir safnaði lendra manna en hvar sem þeir leituðu til landgöngu þá lágu eftir fimm eða sex eða fleiri.

Ingi konungur lá í Hornborusundum með liði miklu. En er Eiríkur konungur spurði það þá snýst hann aftur suður til Danmerkur. Ingi konungur fór eftir þeim og henti af þeim allt það er þeir máttu. Og er það mál manna að eigi hafi verri ferð farin verið í annars konungs veldi með miklu liði og líkaði Eiríki konungi illa við Magnús og hans menn og þóttu þeir hafa mjög spottað sig er hann hafði komið í þessa ferð, lést ekki síðan skyldu vera þeirra vinur slíkur sem áður.