Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/5

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Sigurður slembidjákn kom það sumar vestan um haf til Noregs. En er hann spurði ófarar Magnúss frænda síns þóttist hann vita að þá mundi hann eiga lítið traust í Noregi. Sigldi hann þá allt útleiði suður með landi og kom fram í Danmörk. Hann hélt í Eyrarsund. En suður fyrir Erri hitti hann Vindasnekkjur nokkurar og lagði til bardaga við þá og fékk sigur, hrauð þar átta snekkjur og drap þar mart manna en hengdi suma. Hann átti og orustu við Mön við Vindur og hafði sigur.

Þá hélt hann sunnan og lagði upp í Elfi í eystri kvísl og vann þar þrjú skip af liði þeirra Þóris hvínantorða og Ólafs sonar Haralds kesju systursonar síns. Móðir Ólafs var Ragnhildur dóttir Magnúss konungs berfætts. Hann elti Ólaf á land. Þórir var í Konungahellu og hafði safnað fyrir. Sigurður hélt þannug og skutust þeir á og féllu menn af hvorumtveggjum og mart varð sárt. Þeir Sigurður fengu eigi uppgöngurnar. Þar féll Úlfhéðinn Söxólfsson, norðlenskur maður, stafnbúi Sigurðar.

Sigurður lagði í brott og hélt norður í Víkina og rændi víða. Hann lá í Portyrju á Lungarðssíðu og sætti þar skipum er fóru í Víkina eða úr og rændi. Túnsbergsmenn gerðu lið að honum og komu á óvart svo að þeir Sigurður voru á landi og skiptu fengi sínu. Kom sumt lið ofan að þeim en þeir lögðu skipum um þvera höfnina fyrir utan þá. Sigurður hljóp á skip sitt og reri út að þeim en skip Vatn-Orms var þar næst og lét hann síga á hömlu. En Sigurður reri út hjá þeim og komst undan einu skipi en mart féll af liði hans.

Því var þetta ort:

Varð eigi vel við styrju Vatn-Ormr í Portyrju.