Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/6

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Sigurður slembidjákn sigldi síðan suður til Danmerkur og týndist maður af skipi hans sá er hét Kolbeinn Þorljótsson úr Bataldri. Hann var á eftirbáti er bundinn var við skipið en þeir sigldu mikinn. Sigurður braut skipið er þeir komu suður og var hann um veturinn í Álaborg.

En um sumarið eftir þá fóru þeir Magnús sunnan sjö skipum og komu á Lista á óvart um nótt og lögðu skipum sínum að landi. Þar var fyrir Benteinn Kolbeinsson hirðmaður Inga konungs og hinn hraustasti maður. Þeir Sigurður gengu þar upp í elding nætur og komu á óvart og tóku hús á þeim og vildu leggja eld í býinn en Benteinn komst út í búr nokkuð með herklæðum og vel búinn að vopnum og stóð fyrir innan dyrin við brugðið sverð og hafði skjöld fyrir sér og hjálm á höfði, var þá búinn til varnar. Dyrnar voru heldur lágar. Sigurður spurði hví þeir gengju eigi inn. Þeir svöruðu að engi var einn fús til. En þá er þeir ræddu þetta tíðast hljóp Sigurður inn í húsið um hann. Benteinn hjó eftir honum og missti. Síðan snerist Sigurður að honum og skiptust þeir fám höggum við áður Sigurður drap hann og bar höfuð hans út í hendi sér. Tóku þeir fé allt það er var í býnum, fóru síðan til skipa sinna.

En er Ingi konungur og hans vinir spyrja dráp Benteins og þeir Kolbeinssynir, Sigurður og Gyrður, bræður Benteins, þá gerði konungur lið að þeim Sigurði og fór sjálfur og tók skip undan Hákoni pungeltu Pálssyni og dóttursyni Ásláks Erlingssonar af Sóla, systrungi Hákonar maga. Ingi elti Hákon á land upp og tók hvert fat þeirra. Þeir flýðu í Fjörðu inn undan Sigurður storkur, sonur Eindriða í Gautdali, og Eiríkur hæll bróðir hans og Andrés kelduskítur, sonur Gríms úr Visti, en Sigurður og Magnús og Þorleifur skjappa sigldu norður hið ytra fimm skipum á Hálogaland. Var Magnús um veturinn í Bjarkey með Víðkunni Jónssyni.

En Sigurður hjó stafna af skipi sínu og hjó á raufar og sökkti niður í Ægisfirði innanverðum en Sigurður sat um veturinn í Tjaldasundum í Hinn þar sem heitir Gljúfrafjörður. Í innanverðum firðinum er hellir í bjarginu. Þar sátu þeir Sigurður um veturinn meir en tuttugu menn og settu fyrir hellisdyrnar svo að eigi mátti sjá dyrnar úr fjöru. Þeir fengu Sigurði vistir um veturinn Þorleifur skjappa og Einar sonur Ögmundar af Sandi og Guðrúnar Einarsdóttur Arasonar af Reykjahólum.

Þann vetur er sagt að Sigurður léti Finna gera sér skútur tvær inn í fjörðum og voru sini bundnar og engi saumur í en viðjar fyrir kné og reru tólf menn á borð hvorri. Sigurður var með Finnum þá er þeir gerðu skúturnar og höfðu Finnar þar mungát og gerðu honum þar veislu.

Síðan kvað Sigurður þetta:

Gott var í gamma,
er vér glaðir drukkum
og glaðr grams son
gekk meðal bekkja.
Vara þar gamans vant
að gamansdrykkju.
Þegn gladdi þegn
þar lands sem hvar.

Skútur þær voru svo skjótar að ekki skip tók þær á vatni svo sem kveðið er:

Fátt eitt fylgir
furu háleyskri.
Svipar með segli
sinbundið skip.

En um vorið fóru þeir Sigurður og Magnús norðan með skútur þær tvær er Finnar höfðu gert. En er þeir komu í Voga drápu þeir Svein prest og sonu hans tvo.