Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/7

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Sigurður hélt þá suður í Víkar og tók þar Vilhjálm skinnara, hann var lendur maður Sigurðar konungs, annan Þóralda keft og drápu þá báða. Þá fór Sigurður suður með landi og hitti þar Styrkár glæsirófu suður við Byrðu þá er hann fór sunnan úr Kaupangi og drápu hann. En er Sigurður kom suður til Valsness þá hitti hann Svína-Grím og lét höggva af honum hina hægri hönd. Þá fór hann suður á Mæri fyrir utan Þrándheimsmynni og tók þar Héðin harðmaga og Kálf kringluauga og lét hann Héðin undan ganga en þeir drápu Kálf.

Sigurður konungur og Sáða-Gyrður fóstri hans spurðu til fara Sigurðar og hvað hann hafðist að. Þá sendu þeir menn að leita hans. Fengu þeir þá til forráða Jón köðu son Kálfs hins ranga, bróður Ívars biskups, og annan Jón prest smyril. Þeir skipuðu Hreininn er var tvö rúm og tuttugu og allra skipa skjótast. Þeir fóru að leita Sigurðar og fundu hann eigi og fóru aftur við lítinn orðstír því að menn segja svo að þeir sæju þá og þyrðu eigi að leggja að þeim.

Sigurður fór suður á Hörðaland og kom í Herðlu. Þar átti bú Einar sonur Laxa-Páls og var hann farinn inn í Hamarsfjörð til gagndagaþings. Þeir tóku fé allt er heima var og langskip hálf þrítugt er Einar átti og son hans fjögurra vetra gamlan er lá hjá verkmanni hans. Vildu sumir drepa sveininn en sumir hafa brott með sér.

Verkmaðurinn sagði þeim: „Ekki mun yður happ að drepa svein þenna og engi tilslægja er yður að hafa hann í brott. Þetta er minn sonur en eigi Einars.“

Og af hans orðum létu þeir eftir sveininn en þeir fóru brott. En er Einar kom heim þá gaf hann verkmanninum fé til tveggja aura gulls og þakkaði honum sitt tiltæki og lést skyldu vera vinur hans jafnan síðan.

Svo segir Eiríkur Oddsson er fyrsta sinn reit þessa frásögn að hann heyrði í Björgyn segja frá þessum atburðum Einar Pálsson.

Sigurður fór þá suður með landi og allt í Vík austur og hitti Finn Sauða-Úlfsson austur á Kvildum er hann fór heimta landskyldir Inga konungs og létu hengja hann. Þeir fóru síðan suður til Danmerkur.