Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/20

Úr Wikiheimild

Litlu síðar byrjaði Eysteinn konungur ferð sína úr landi vestur um haf og sigldi til Kataness. Hann spurði til Haralds jarls Maddaðarsonar í Þórsá. Hann lagði til með þrjár smáskútur og komu á þá óvara en jarl hafði haft þrítugt skip og á átta tigu manna. En er þeir voru óbúnir við, þá fengu þeir Eysteinn konungur þegar uppgöngu á skipið og tóku höndum jarl og höfðu með sér á skip. Hann leysti sig út með þremur mörkum gulls og skildust þeir að svo búnu.

Svo segir Einar Skúlason:

Voru, Sogns, með, sára,
syni Maddaðar staddir,
mágrennir fékkst, manna,
máttigr, tigir átta.
Þrem skútum tók þreytir
þann jarl drasils hranna.
Hraustr gaf hræskúfs nistir
höfuð sitt frömum jöfri.

Eysteinn konungur sigldi þaðan suður fyrir austan Skotland og lagði til kaupstaðar þess á Skotlandi er heitir Apardjón og drap þar mart manna og rændi staðinn.

Svo segir Einar Skúlason:

Frétt hefi eg að féll,
fólk brustu svell,
jöfur eyddi frið,
Apardjónar lið.

Aðra orustu átti hann suður við Hjartapoll við riddaralið og kom þeim á flótta. Hruðu þeir skip nokkur þar.

Svo segir Einar:

Beit buðlungs hjör,
blóð féll á dör,
hirð fylgdist holl
við Hjartapoll.
Hugin gladdi heit,
hruðust Engla beit,
óx vitnis vín,
valbasta Rín.

Þá hélt hann enn suður á England og átti þriðju orustu við Hvítabý og fékk sigur en brenndi býinn.

Svo segir Einar:

Jók hilmir hjaldr,
þar var hjörva galdr,
hjóst hildar ský,
við Hvítabý.
Ríkt lék við rönn,
rauðst ylgjar tönn,
fékkst fyrðum harmr,
fyriskógar garmr.

Eftir það herjaði hann víða um England. Þá var Stefnir konungur á Englandi. Því næst átti Eysteinn konungur orustu við Skarpasker við riddara nokkura.

Svo segir Einar:

Drap döglingr gegn,
dreif strengjar regn,
við Skörpusker
skjaldkænan her.

Þar næst barðist hann í Pílavík og fékk sigur.

Svo segir Einar:

Rauð siklingr sverð,
sleit gyldis ferð
prútt Parta lík,
í Pílavík.
Vann vísi allt,
fyr vestan salt
brandr gall í brún,
brennt Langatún.

Þeir brenndu þar Langatún, mikið þorp, og segja menn að sá býr hafi litla uppreist fengið síðan. Eftir það fór Eysteinn konungur brott af Englandi og um haustið aftur í Noreg og ræddu menn um þessa ferð allmisjafnt.