Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/23

Úr Wikiheimild

Nikulás kardínáli af Rúmaborg kom í Noreg á dögum þeirra Haraldssona og hafði páfinn hann sent í Noreg. En kardínálinn hafði reiði á þeim Sigurði og Eysteini og urðu þeir að ganga til sættar við hann en hann var afar vel sáttur við Inga og kallaði hann son sinn. En er þeir voru allir sáttir við hann veitti hann þeim að vígja Jón Birgisson til erkibiskups í Þrándheimi og fékk honum klæði það er pallíum heitir og mælti svo að erkibiskupsstóll skyldi vera í Niðarósi að Kristskirkju þar er Ólafur konungur hinn helgi hvílir en áður höfðu ljóðbiskupar einir verið í Noregi. Kardínálinn kom því við að engi maður skyldi með vopnum fara í kaupstöðum að ósekju nema tólf menn þeir er fylgd áttu með konungi. Hann bætti að mörgu siðu manna í Noregi meðan hann var þar í landi. Eigi hefir sá maður komið í Noreg útlendur er allir menn mætu jafnmikils eða jafnmiklu mætti ráða við alþýðu sem hann. Hann fór suður síðan með miklar vingjafir og lést ávallt mundu vera hinn mesti vinur Norðmanna.

En er hann kom suður til Rúmaborgar þá andaðist bráðlega páfinn, sá er áður var, en allur Rúmaborgarlýður vildi taka Nikulás til páfa. Þá var hann vígður til páfa með nafni Adríanusar. Svo segja þeir menn er um hans daga komu til Rúmaborgar að aldrei átti hann svo skylt erindi við aðra menn að eigi mælti hann við Norðmenn fyrst ávallt er þeir vildu hafa mál hans. Hann var eigi lengi páfi, og er hann kallaður heilagur.