Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/24

Úr Wikiheimild

Á dögum þeirra sona Haralds gilla varð atburður að maður er Halldór nefndur, er varð fyrir Vindum og tóku þeir hann og veittu honum meiðslur, skáru kverkurnar og drógu þar út tunguna og skáru af í tungurótunum. Síðan sótti hann til hins helga Ólafs konungs, renndi hugnum fastlega til þess helga manns og bað mjög grátandi Ólaf konung ljá sér máls og heilsu. Því næst fékk hann mál og miskunn af þessum góða konungi og gerðist þegar hans þjónustumaður um alla sína lífdaga og varð dýrlegur maður og trúfastur.

Þessi jartegn varð hálfum mánaði fyrir Ólafsmessu hina síðari á þeim degi er Nikulás kardínáli varð landfastur.