Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/25
Höfundur: Snorri Sturluson
25. Jartegnir Ólafs konungs við Ríkarð prest
Bræður tveir voru á Upplöndum, kynstórir menn og fjáðir vel, synir Guttorms grábarðs, Einar og Andrés móðurbræður Sigurðar konungs Haraldssonar, áttu þar óðal og eignir allar. Systur áttu þeir fríða heldur að yfirsýn en eigi þó til forsjála við vondra manna orði sem síðan reyndist. Hafði hún blíðlæti mikið við prest einn enskan er Ríkarður hét er þar var heimilisvistum með bræðrum hennar og gerði hún honum mart í vild og oft mikið gagn fyrir sakir góðvilja. Það bar eigi betur að en um konu þá fór og flaug ferlegt orð. Síðan er það var á málreið komið þá hugðu það allir menn á hendur prestinum og svo bræður hennar þegar þeir urðu þess varir, þá létu þeir hann líklegstan til fyrir alþýðu í þeirri miklu blíðu er þeirra varð á meðal. Varð þeim síðan mikill ófarnaður sem eigi var örvænt er þeir þögðu um leyndri vél og létu ekki á sér finna.
En um dag nokkurn kölluðu þeir prestinn til sín, hann varði einskis af þeim nema góðs eins, teygðu hann heiman með sér og kváðust fara skyldu í annað hérað að sýsla þar nokkuð, það er þeir þurftu, og báðu hann fylgja sér, höfðu með sér heimamann sinn er vissi þessi ráð með þeim. Fóru þeir á skipi eftir vatni því er Rönd heitir og fram með vatnsströndinni og lentu við nes það er Skiptisandur heitir. Þeir gengu þar á land upp og léku stund nokkura. Þá fóru þeir í nokkurn leyndan stað. Þá báðu þeir verkmanninn ljósta hann öxarhamarshögg. Hann sló prest svo að hann lá í svíma.
En er hann vitkaðist mælti hann: „Hví skal nú svo hart við mig leika?“
Þeir svöruðu: „Þótt engi segi þér þá skaltu nú finna hvað þú hefir gert,“ báru síðan sakir á hendur honum.
Hann synjaði og mælti, bað guð skipta milli þeirra og hinn helga Ólaf konung. Síðan brutu þeir sundur fótlegg hans. Þá drógu þeir hann milli sín til skógar og bundu hendur hans á bak aftur. Síðan lögðu þeir strengi að höfði honum og þilju undir herðar og höfuðið og settu í sneril og sneru að strenginn. Þá tók Einar hæl og setti á augað presti og þjónn hans stóð yfir og laust á með öxi og hleypti út auganu svo að þegar stökk niður á kampinn.
En þá setti hann hælinn á annað augað og mælti við þjóninn: „Ljóstu mun kyrrara.“
Hann gerði svo. Þá skaust hællinn af augasteininum og sleit frá honum hvarminn. Síðan tók Einar hvarminn með hendi sinni og hélt af upp og sá að augasteinninn var þar. Þá setti hann hælinn við kinnina út en þjónninn laust þá og sprakk augasteinninn á kinnarbeinið niður þar er það var hæst. Síðan opnuðu þeir munn hans og tóku tunguna og drógu út og skáru af en síðan leystu þeir hendur hans og höfuð. Þegar er hann vitkaðist þá varð honum það fyrir að hann lagði augasteinana upp við brýnnar í stað sinn og hélt hann þar að báðum höndum sem hann mátti.
En þá báru þeir hann til skips og fóru til bæjar þess er heitir á Sæheimruð og lentu þar. Þeir sendu mann til bæjarins að segja að prestur lá þar að skipi á ströndu. Meðan sá maður var upp farinn er sendur var þá spurðu þeir ef prestur mætti mæla en hann blaðraði tungunni og vildi við leita að mæla.
Þá mælti Einar við bróður sinn: „Ef hann réttist við og grær fyrir tungustúfinn þá kemur mér það í hug að hann muni mæla.“
Síðan klýptu þeir tungustúfinn með töng og toguðu og skáru tvisvar þaðan frá og í tungurótunum hið þriðja sinn og létu hann þar liggja hálfdauðan.
Húsfreyja þar á bænum var fátæk en þó fór hún þegar og dóttir hennar með henni og báru hann heim til húss í möttlum sínum. Síðan fóru þær eftir presti en er hann kom þangað þá batt hann sár hans öll og leituðu honum hæginda slíkra sem þau máttu. Hann lá þá, hinn sári prestur, aumlega búinn, vilnaðist jafnan guðs miskunnar og tortryggði það aldrei, bað guð mállaus með hugrenningum og sútfullu hjarta, því öllu traustara er hann var sjúkari, og renndi huginum til þess milda konungs, Ólafs hins helga guðs dýrlings, og hafði hann áður heyrt mart sagt frá hans dýrðarverkum og trúði því öllu hvatara á hann af öllu hjarta til allrar hjálpar í sínum nauðum. En er hann lá þar lami, að öllu megni numinn, þá grét hann sárlega og stundi, bað með sáru brjósti þann dýrling, Ólaf konung, duga sér. En eftir miðja nótt þá sofnaði prestur hinn sári.
Þá þóttist hann sjá mann göfuglegan koma til sín og mæla við sig: „Illa ertu nú leikinn Ríkarður félagi. Sé eg að eigi er nú mátturinn mikill.“
Hann þóttist sanna það.
Þá mælti sá við hann: „Miskunnar ertu þurfi.“
Prestur segir: „Eg þyrfti miskunnar guðs almáttigs og hins helga Ólafs konungs.“
Hann segir: „Þú skalt hafa og.“
Því næst tók hann tungustúfinn og heimti svo hart að prestinum varð sárt við. Því næst strauk hann hendi sinni um augu honum og um bein, svo um aðra limi er sárir voru. Þá spurði presturinn hver þar væri.
Hann leit við honum og mælti: „Ólafur er hér norðan úr Þrándheimi.“
En síðan hvarf hann í brott en prestur vaknaði alheill og þegar tók hann að mæla: „Sæll em eg,“ sagði hann, „guði þökk og hinum helga Ólafi konungi. Hann hefir græddan mig.“
En svo hörmulega sem hann var áður leikinn, svo bráðar bætur fékk hann allrar þeirrar óhamingju og svo þótti honum sem hann hefði hvorki orðið sár né sjúkur, tungan heil, augun bæði í lag komin, beinbrotin gróin og öll önnur sár gróin eða verklaus, fengið hina bestu heilsu. En til jarteina var að augu hans höfðu verið út stungin, þá greri ör hvítt á hvarmi hvorumtveggja til þess að sjá mætti dýrð þess hins göfga konungs að þeim manni er svo var aumlega búinn.