Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/26

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Eysteinn og Sigurður höfðu verið ósáttir fyrir þá sök að Sigurður konungur hafði vegið hirðmann Eysteins konungs, Harald hinn víkverska er hús átti í Björgyn, og annan Jón prest taparð, son Bjarna Sigurðarsonar. Fyrir þá sök lögðu þeir með sér sættarstefnu um veturinn á Upplöndum. Þeir sátu lengi tveir á máli en það kom upp úr hjali þeirra að þeir skyldu hittast í Björgyn allir bræður eftir um sumarið. Það fylgdi því máli að þeir vildu að Ingi konungur hefði bú tvö eða þrjú og svo mikil önnur auðæfi að hann hefði þrjá tigu manna með sér og lést þykja hann eigi hafa heilsu til að vera konungur.

Ingi og Gregoríus spurðu þessi tíðindi og fóru til Björgynjar og fjölmenntu mjög. Sigurður kom litlu síðar og hafði hann lið sýnu minna. Þá höfðu þeir Ingi og Sigurður verið nítján vetur konungar yfir Noregi. Eysteinn var seinni austan úr Víkinni en þeir norðan.

Þá lét Ingi konungur blása til þings í Hólm og koma þeir þar Sigurður og Ingi konungur og fjölmenni mikið. Gregoríus hafði tvö skip og vel níu tigu manna er hann fékk allar vistir. Hann hélt betur húskarla sína en aðrir menn lendir því að hann drakk aldrei svo í skytningum að eigi drykkju húskarlar hans allir með honum. Hann gekk með hjálm gullroðinn á þingið og allt hans lið var hjálmað. Ingi konungur stóð upp og sagði mönnum frá hvað hann hafði spurt, hvernug bræður hans vildu við hann skipa og bað sér liðs en alþýða manna gerði góðan róm að máli hans og létust honum vilja fylgja.