Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/27
Höfundur: Snorri Sturluson
27. Frá Gregoríusi Dagssyni
Þá stóð Sigurður konungur upp og talar, segir það ósatt er Ingi kenndi þeim, kvað Gregoríus slíkt upp setja og kvað eigi skyldu langt til að sá fundur þeirra skyldi verða ef hann mætti ráða að hann mundi steypa hjálminum þeim hinum gullroðna og lauk svo sínu máli að hann kvað þá eigi lengi ganga báða. Gregoríus svarar, kvaðst það ætla að hann þyrfti lítt að fýsast þess og lést við því búinn.
Fám dögum síðar var veginn húskarl Gregoríusar úti á stræti og vó húskarl Sigurðar konungs. Þá vildi Gregoríus ganga að þeim Sigurði konungi en Ingi konungur latti og mart annarra manna.
En er Ingiríður móðir Inga konungs gekk frá aftansöng þá kom hún að þar er veginn var Sigurður skrúðhyrna. Hann var hirðmaður Inga konungs og var gamall og hafði mörgum konungum á höndum verið. En þeir höfðu vegið hann menn Sigurðar konungs, Hallvarður Gunnarsson og Sigurður sonur Eysteins trafala, og kenndu menn ráðin Sigurði konungi. Þá gekk hún þegar til Inga konungs og sagði honum, kvað hann lengi mundu lítinn konung ef hann vildi ekki að færast þótt hirðmenn hans væru drepnir, annar að öðrum svo sem svín. Konungur reiddist við átölur hennar.
Og er þau hnipptust við kom Gregoríus inn gangandi, hjálmaður og brynjaður, bað konung eigi reiðast, kvað hana satt mæla: „En eg em hér kominn til liðs við þig ef þú vilt veita Sigurði konungi atgöngu og er hér meir en hundrað manna úti í garðinum, húskarla minna, hjálmaðir og brynjaðir, og munum vér þaðan að þeim sækja er öðrum þykir verst.“
En flestir löttu og kváðu Sigurð mundu vilja bæta óhapp sitt.
En er Gregoríus sá að letjast mundi mælti hann við Inga konung: „Svo bleðja þeir af þér, drápu minn húskarl fyrir skömmu en nú hirðmann þinn en þeir munu vilja veiða mig eða annan lendan mann, þann er þeim þykir þér mest afnám í vera, er þeir sjá að þú færist ekki að en taka þig af konungdóminum eftir það er vinir þínir eru drepnir. Nú hverngan veg sem aðrir lendir menn þínir vilja, þá vil eg eigi bíða nauthöggsins og skulum við Sigurður kaupa saman þessa nótt að því kaupi sem þá má verða. En það er bæði að þú ert illa að tekinn fyrir vanheilsu sakir enda ætla eg lítinn viljann að halda vini þína. En eg em nú albúinn að ganga til fundar við Sigurð héðan því að hér er merki mitt úti.“
Ingi konungur stóð upp og kallaði til klæða sinna, bað hvern mann búast er honum vildi fylgja og kvað ekki tjá að letja sig, lést lengi hafa undan ært, lét þá verða sverfa til stáls með þeim.