Fara í innihald

Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/28

Úr Wikiheimild


Sigurður konungur drakk í garði Sigríðar sætu og bjóst við og ætlaði að ekki mundi af atgöngunni verða. Síðan gengu þeir að garðinum, Ingi konungur ofan frá smiðabúðum, Árni konungsmágur utan frá Sandbrú, Áslákur Erlendsson úr garði sínum en Gregoríus af strætinu og þótti þaðan verst. Þeir Sigurður skutu mjög úr loftgluggum og brutu ofna og báru grjótið á þá. Þeir Gregoríus brutu upp garðshliðið og féll þar Einar sonur Laxa-Páls í hliðinu af liði Sigurðar konungs og Hallvarður Gunnarsson. Hann var skotinn í loftið inn og harmaði hann engi maður. Þeir hjuggu húsin og gekk lið Sigurðar af hendi honum til griða. Þá gekk Sigurður á loft eitt og vildi beiða sér hljóðs en hann hafði gullroðinn skjöld og kenndu menn hann og vildu eigi hlýða honum. Menn skutu að honum svo sem í drífu sæi og mátti hann eigi þar vera. En þá er liðið var gengið af hendi honum og menn hjuggu húsin mjög, þá gekk hann út og Þórður húsfreyja með honum hirðmaður hans, víkverskur maður, og vildu þannug sem Ingi konungur var fyrir og kallaði Sigurður á Inga bróður sinn að hann skyldi selja honum grið. En þeir voru þegar höggnir báðir. Féll Þórður húsfreyja með orðlofi miklu.

Þar féll mart manna, þótt eg nefni fátt, af liði Sigurðar og svo af Inga liði en fjórir menn af Gregoríusar liði og svo þeir er með hvorigum voru og urðu þeir fyrir skotum á bryggjum niðri eða á skipum úti. Þeir börðust fjórtán nóttum fyrir Jónsmessu baptista en það er föstudagur. Sigurður konungur var jarðaður að Kristskirkju hinni fornu í Hólmi út. Ingi konungur gaf Gregoríusi skip það er Sigurður konungur hafði átt.

En tveim nóttum eða þremur síðar kom Eysteinn konungur austan með þrjá tigu skipa og hafði þar Hákon bróðurson sinn í ferð með sér og fór eigi til Björgynjar og dvaldist í Flóruvogum en menn fóru í meðal og vildu sætta þá.

En Gregoríus vildi að þeir legðu út að þeim og kvað eigi síðar betra, kvaðst hann mundu vera höfðingi að því „en þú, konungur, far eigi. Er nú eigi vant liðs til.“

En margir löttu og tókst af því eigi ferðin. Eysteinn konungur fór austur í Víkina en Ingi konungur norður í Þrándheim og voru þeir þá sáttir að kalla og hittust eigi sjálfir.