Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/31

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Þá er liðnir voru tveir vetur frá falli Sigurðar konungs drógu konungar her saman, Ingi austan úr landi og fékk hann átta tigu skipa en Eysteinn konungur norðan og fékk hálfan fimmta tug skipa. Þá hafði hann dreka hinn mikla er Eysteinn konungur Magnússon hafði látið gera og höfðu þeir allfrítt lið og mikið. Ingi konungur lá skipum sínum suður við Mostur en Eysteinn konungur litlu norðar, í Græningasundi.

Eysteinn sendi suður til Inga Áslák unga Jónsson og Árna sturlu Sæbjarnarson. Þeir höfðu eitt skip. En er Inga menn kenndu þá lögðu þeir að þeim og drápu mart manna af þeim, tóku skipið og allt það er á var og hvert fat þeirra. En Áslákur og Árni og nokkurir menn með þeim komust á land upp og fóru til fundar við Eystein konung og sögðu honum hvernug Ingi konungur hefði fagnað þeim.

Eysteinn konungur hafði þá húsþing og segir mönnum hvern ófrið þeir Ingi vildu gera og bað liðsmenn að þeir skyldu honum fylgja „og höfum vér lið svo mikið og gott að eg vil hvergi undan flýja ef þér viljið fylgja mér.“

En engi varð rómur að máli hans. Hallkell húkur var þar en synir hans báðir með Inga, Símon og Jón.

Hallkell svaraði svo að mjög margir heyrðu: „Fylgi gullkistur þínar þér nú og verji land þitt.“