Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/32

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Um nóttina eftir reru þeir í brott mörgum skipum á laun, sumir til lags við Inga konung, sumir til Björgynjar, sumir í fjörðu inn. En að morgni er lýst var þá var konungur tíu skipum einum eftir. Þá lét hann þar eftir dreka hinn mikla því að hann var þungur undir árum og fleiri skipin og hjuggu drekann mjög og svo hjuggu þeir niður mungát sitt og allt, það er þeir máttu eigi með sér hafa, spilltu þeir. Eysteinn konungur gekk á skip Eindriða Jónssonar mörnefs og fóru þeir norður og inn í Sogn og þaðan hið efra austur til Víkur.

Ingi konungur tók skipin og fór austur hið ytra í Víkina. En fyrir austan Fold þá var þar Eysteinn og hafði nær tólf hundruðum manna. Þá sáu þeir skipalið Inga konungs og þóttust eigi lið við hafa og hljópu á skóg undan. Þá flýði á sinn veg hvað svo að konungur var við annan mann. Þeir Ingi urðu varir við farar Eysteins og svo það að hann var fámennur. Þeir fóru að leita hans. Símon skálpur hitti hann er hann gekk undan hrísrunni einum að þeim.

Símon heilsaði honum: „Heill lávarður,“ segir hann.

Konungur segir: „Eigi veit eg nema þú þykist nú minn lávarður,“ segir hann.

„Er nú sem gerist,“ segir Símon.

Konungur bað að hann skyldi honum undan skjóta, kvað honum það byrja „því að lengi hefir með okkur vel verið þótt nú sé annan veg.“

Símon kvað þá ekki mundu af því verða. Konungur bað að hann skyldi hlýða messu áður og það var. Síðan lagðist hann niður á grúfu og breiddi hendur frá sér út og bað sig höggva í kross á milli herðanna, kvað þá skyldu reyna hvort hann mundi þola járn eða eigi sem þeir höfðu sagt lagsmenn Inga. Símon mælti við þann er höggva skyldi, bað hann til ráða, kvað konung helsti lengi hafa kropið þar um lyng. Hann var þá höggvinn og þótti verða við prúðlega.

Lík hans var flutt til Foss en fyrir sunnan kirkju undir brekkunni var lík hans náttsætt. Eysteinn konungur var jarðaður að Fosskirkju og er leg hans á miðju kirkjugólfi og breiddur yfir kögur og kalla menn hann helgan. Þar sem hann var höggvinn og blóð hans kom á jörð spratt upp brunnur en annar þar undir brekkunni sem lík hans var náttsætt. Af hvorutveggja því vatni þykjast margir menn bót hafa fengið. Það er sögn Víkverja að margar jarteinir yrðu að leiði Eysteins konungs áður óvinir hans steyptu á leiðið hundssoði.

Símon skálpur var hið mesta óþokkaður af verki þessu og var það alþýðu mál. En sumir segja þá er Eysteinn konungur var handtekinn að Símon sendi mann til fundar við Inga konung en konungur bað Eystein eigi koma í augsýn sér. Svo hefir Sverrir konungur rita látið.

En þannug segir Einar Skúlason:

Mun, sá er morði vandist
margillr og sveik stilli,
síð af slíkum ráðum
Símon skálpr of hjálpast.