Heimskringla/Ynglinga saga/15

Úr Wikiheimild

Dómaldi tók arf eftir föður sinn Vísbur og réð löndum. Á hans dögum gerðist í Svíþjóð sultur og seyra. Þá efldu Svíar blót stór að Uppsölum. Hið fyrsta haust blótuðu þeir yxnum og batnaði ekki árferð að heldur. En annað haust hófu þeir mannblót en árferð var söm eða verri. En hið þriðja haust komu Svíar fjölmennt til Uppsala þá er blót skyldu vera. Þá áttu höfðingjar ráðagerð sína og kom það ásamt með þeim að hallærið mundi standa af Dómalda konungi þeirra og það með að þeir skyldu honum blóta til árs sér og veita honum atgöngu og drepa hann og rjóða stalla með blóði hans, og svo gerðu þeir.

Svo segir Þjóðólfur:

Hitt var fyrr
að fold ruðu
sverðberendr
sínum drottni,
og landher
á lífs vanan
dreyrug vopn
Dómalda bar,
þá er árgjörn
Jóta dólgi
Svía kind
um sóa skyldi.