Fara í innihald

Heimskringla/Ynglinga saga/18

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ynglinga saga
Höfundur: Snorri Sturluson
18. Frá Dag spaka

Dagur hét sonur Dyggva konungs er konungdóm tók eftir hann. Hann var maður svo spakur að hann skildi fuglsrödd. Hann átti spör einn er honum sagði mörg tíðindi. Flaug hann á ýmsi lönd.

Það var eitt sinn að spörinn flaug á Reiðgotaland á bæ þann er á Vörva heitir. Hann flaug í akur karls og fékk þar matar. Karl kom þar og tók upp stein og laust spörinn til bana.

Dagur konungur varð illa við er spörinn kom eigi heim. Gekk hann þá til sonarblóts til fréttar og fékk þau svör að spör hans var drepinn á Vörva. Síðan bauð hann út her miklum og fór til Gotlands. En er hann kom á Vörva gekk hann upp með her sinn og herjaði. Fólkið flýði víðs vegar undan. Dagur konungur sneri herinum til skipa er kveldaði og hafði drepið mart fólk og mart handtekið.

En er þeir fóru yfir á nokkura þar sem heitir Skjótansvað eða Vopnavað þá rann fram úr skógi einn verkþræll á árbakkann og skaut heytjúgu í lið þeirra og kom í höfuð konungi skotið. Féll hann þegar af hestinum og fékk bana.

Í þann tíma var sá höfðingi gramur kallaður er herjaði en hermennirnir gramir.

Svo segir Þjóðólfur:

Frá eg að Dagr
dauðaorði,
frægðar fús,
um fara skyldi,
þá er valteins
til Vörva kom
spakfrömuðr
spörs að hefna.
Og það orð
á austrvega
vísa ferð
frá vígi bar,
að þann gram
um geta skyldi
slönguþref
sleipnis verðar.