Fara í innihald

Heimskringla/Ynglinga saga/2

Úr Wikiheimild

Fyrir austan Tanakvísl í Asíu var kallað Ásaland eða Ásaheimur en höfuðborgin, er í var landinu, kölluðu þeir Ásgarð. En í borginni var höfðingi sá er Óðinn var kallaður. Þar var blótstaður mikill. Það var þar siður að tólf hofgoðar voru æðstir. Skyldu þeir ráða fyrir blótum og dómum manna í milli. Það eru díar kallaðir eða drottnar. Þeim skyldi þjónustu veita og lotning allt fólk.

Óðinn var hermaður mikill og mjög víðförull og eignaðist mörg ríki. Hann var svo sigursæll að í hverri orustu fékk hann gagn og svo kom að hans menn trúðu því að hann ætti heimilan sigur í hverri orustu. Það var háttur hans, ef hann sendi menn sína til orustu eða aðrar sendifarar, að hann lagði áður hendur í höfuð þeim og gaf þeim bjannak. Trúðu þeir að þá mundi vel farast. Svo var og um hans menn, hvar sem þeir urðu í nauðum staddir á sjá eða landi, þá kölluðu þeir á nafn hans og þótti jafnan fá af því fró. Þar þóttust þeir eiga allt traust er hann var. Hann fór oft svo langt í brott að hann dvaldist í ferðinni mörg misseri.