Heimskringla/Ynglinga saga/20

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Alrekur og Eiríkur hétu synir Agna er konungar voru eftir hann. Þeir voru ríkir menn og hermenn miklir og íþróttamenn. Það var siðvenja þeirra að ríða hesta, temja bæði við gang og við hlaup. Kunnu þeir það allra manna best. Lögðu þeir á það hið mesta kapp hvor betur reið eða betri hesta átti.

Það var eitt sinn að þeir bræður riðu tveir frá öðrum mönnum með hina bestu hesta sína og riðu út á völlu nokkura og komu eigi aftur. Var þeirra leita farið og fundust þeir báðir dauðir og lamið höfuð á báðum en ekki vopn höfðu þeir nema bitlana af hestunum og það hyggja menn að þeir hafi drepist þar með.

Svo segir Þjóðólfur:

Féll Alrekr,
þar er Eiríki
bróður vopn
að bana urðu,
og hnakkmars
höfuðfetlum
Dags frændr
um drepast kváðu.
Fráat maðr áðr
eykja gervi
Freys afspring
í fólk hafa.