Heimskringla/Ynglinga saga/21

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Yngvi og Álfur voru synir Alreks er konungdóm tóku í Svíþjóð þar næst. Var Yngvi hermaður mikill og allsigursæll, fríður og íþróttamaður hinn mesti, sterkur og hinn snarpasti í orustum, mildur af fé og gleðimaður mikill. Af slíku öllu varð hann frægur og vinsæll.

Álfur konungur bróðir hans sat að löndum og var ekki í hernaði. Hann var kallaður Elfsi. Hann var maður þögull, ríklundaður og óþýður. Móðir hans hét Dageiður dóttir Dags konungs hins ríka er Döglingar eru frá komnir. Álfur átti konu er Bera hét, kvinna fríðust og skörungur mikill, gleðimaður hinn mesti.

Yngvi Alreksson var þá enn eitt haust kominn úr víkingu til Uppsala og var þá hinn frægsti. Hann sat oft við drykkju lengi um kveldum. Álfur konungur gekk oft snemma að sofa. Bera drottning sat oft á kveldum og hjöluðu þau Yngvi sín í millum. Álfur ræddi oft um, bað hana fara fyrr að sofa, sagði að hann vildi ekki vaka eftir henni. Hún svarar og segir að sú kona væri sæl er heldur skyldi eiga Yngva en Álf. Hann reiddist því mjög er hún mælti það oft.

Eitt kveld gekk Álfur inn í höllina þá er þau Yngvi og Bera sátu í hásæti og töluðust við. Hafði Yngvi um kné sér mæki. Menn voru mjög drukknir og gáfu engan gaum að er konungurinn kom inn. Álfur konungur gekk að hásætinu, brá sverði undan skikkju og lagði í gegnum Yngva bróður sinn. Yngvi hljóp upp og brá mækinum og hjó Álf banahögg og féllu þeir báðir dauðir á gólfið. Voru þeir Álfur og Yngvi heygðir á Fýrisvöllum.

Svo segir Þjóðólfur:

Og varð hinn
er Álfr um vó,
vörðr véstalls,
um veginn liggja,
er döglingr
dreyrgan mæki
öfundgjarn
á Yngva rauð.
Vara það bært
að Bera skyldi
valsæfendr
vígs um hvetja
þá er bræðr tveir
að bönum urðust
óþurfendr
um afbrýði.