Heimskringla/Ynglinga saga/39

Úr Wikiheimild

Um haustið eftir fór Granmar konungur og Hjörvarður konungur mágur hans að taka veislu í ey þeirri er Sili heitir að búum sínum. Og þá er þeir voru að veislunni kemur þar Ingjaldur konungur með her sinn á einni nótt og tók hús á þeim og brenndi þá inni með öllu liði sínu. Eftir það lagði hann undir sig ríki það allt er átt höfðu konungar og setti yfir höfðingja.

Högni konungur og Hildir sonur hans riðu oft upp í Svíaveldi og drápu menn Ingjalds konungs, þá er hann hafði sett yfir það ríki er átt hafði Granmar konungur mágur þeirra. Stóð þar langa hríð mikil deila millum Ingjalds konungs og Högna konungs. Fékk Högni konungur þó haldið sínu ríki fyrir Ingjaldi konungi allt til dauðadags.

Ingjaldur konungur átti tvö börn við konu sinni og hét hið eldra Ása en annað Ólafur trételgja, og sendir Gauthildur kona Ingjalds konungssveininn til Bófa fóstra síns í Vestra-Gautland. Hann var þar upp fæddur og Saxi sonur Bófa er kallaður var flettir.

Það er sögn manna að Ingjaldur konungur dræpi tólf konunga og sviki alla í griðum. Hann var kallaður Ingjaldur hinn illráði. Hann var konungur yfir mestum hlut Svíþjóðar. Ásu dóttur sína gifti hann Guðröði konungi á Skáni. Hún var skaplík föður sínum. Ása olli því er hann drap Hálfdan bróður sinn. Hálfdan var faðir Ívars hins víðfaðma. Ása réð og bana Guðröði búanda sínum.