Fara í innihald

Heimskringla/Ynglinga saga/40

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ynglinga saga
Höfundur: Snorri Sturluson
40. Dauði Ingjalds illráða

Ívar hinn víðfaðmi kom á Skáni eftir fall Guðröðar föðurbróður síns og dró þegar her mikinn saman, fór síðan upp á Svíþjóð. Ása hin illráða var áður farin á fund föður síns. Ingjaldur konungur var þá staddur á Ræningi að veislu er hann spurði að her Ívars konungs var þar nær kominn. Þóttist Ingjaldur engan styrk hafa til að berjast við Ívar. Honum þótti og sá sýnn kostur, ef hann legðist á flótta, að hvaðanæva mundu fjandmenn hans að drífa. Tóku þau Ása það ráð er frægt er orðið að þau gerðu fólk allt dauðadrukkið. Síðan létu þau leggja eld í höllina. Brann þar höllin og allt fólk það er inni var með Ingjaldi konungi.

Svo segir Þjóðólfur:

Og Ingjald
ífjörvan trað
reyks rösuðr
á Ræningi
þá er húsþjófr
hyrjar leistum
goðkynning
í gegnum steig.
Og sá urðr
allri þjóðu
sjaldgætastr
með Svíum þótti,
er hann sjálfr
sínu fjörvi
fræknu fyrstr
um fara vildi.