Heimskringla/Ynglinga saga/42

Úr Wikiheimild

Ólafur sonur Ingjalds konungs, þá er hann spurði fráfall föður síns þá fór hann með það lið er honum vildi fylgja því að allur múgur Svía hljóp upp með einu samþykki að rækja ætt Ingjalds konungs og alla hans vini. Ólafur fór fyrst upp á Næríki en er Svíar spurðu til hans þá mátti hann ekki þar vera. Fór hann þá vestur markleiði til ár þeirrar er norðan fellur í Væni og Elfur heitir. Þar dveljast þeir, taka þar að ryðja mörkina og brenna og byggja síðan. Urðu þar brátt stór héruð. Kölluðu þeir það Vermaland. Þar voru góðir landskostir. En er spurðist til Ólafs í Svíþjóð, að hann ryður markir, kölluðu þeir hann trételgju og þótti hæðilegt hans ráð.

Ólafur fékk þeirrar konu er Sölveig hét eða Sölva dóttir Hálfdanar gulltannar vestan af Sóleyjum. Hálfdan var sonur Sölva Sölvarssonar Sölvasonar hins gamla er fyrstur ruddi Sóleyjar. Móðir Ólafs trételgju hét Gauthildur en hennar móðir Ólöf dóttir Ólafs hins skyggna konungs af Næríki. Ólafur og Sölva áttu tvo sonu, Ingjald og Hálfdan. Hálfdan var upp fæddur í Sóleyjum með Sölva móðurbróður sínum. Hann var kallaður Hálfdan hvítbeinn.