Heimskringla/Ynglinga saga/5

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Fjallgarður mikill gengur af landnorðri til útsuðurs. Sá skilur Svíþjóð hina miklu og önnur ríki. Fyrir sunnan fjallið er eigi langt til Tyrklands. Þar átti Óðinn eignir stórar. Í þann tíma fóru Rúmverjahöfðingjar víða um heiminn og brutu undir sig allar þjóðir en margir höfðingjar flýðu fyrir þeim ófriði af sínum eignum. En fyrir því að Óðinn var forspár og fjölkunnigur þá vissi hann að hans afkvæmi mundi um norðurhálfu heimsins byggja.

Þá setti hann bræður sína Vé og Víli yfir Ásgarð en hann fór og díar allir með honum og mikið mannfólk. Fór hann fyrst vestur í Garðaríki og þá suður í Saxland. Hann átti marga sonu. Hann eignaðist ríki víða um Saxland og setti þar sonu sína til landsgæslu. Þá fór hann norður til sjávar og tók sér bústað í ey einni. Þar heitir nú Óðinsey í Fjóni.

Þá sendi hann Gefjun norður yfir sundið í landaleitan. Þá kom hún til Gylfa og gaf hann henni eitt plógsland. Þá fór hún í Jötunheima og gat þar fjóra sonu við jötni nokkurum. Hún brá þeim í yxnalíki og færði þá fyrir plóginn og dró landið út á hafið og vestur gegnt Óðinsey og er það kölluð Selund. Þar byggði hún síðan. Hennar fékk Skjöldur sonur Óðins. Þau bjuggu að Hleiðru. Þar er vatn eða sjár eftir. Það er kallað Lögurinn. Svo liggja firðir í Leginum sem nes í Selundi.

Svo kvað Bragi hinn gamli:

Gefjun dró frá Gylfa
glöð djúpröðul öðla,
svo at af rennirauknum
rauk, Danmarkar auka.
Báru yxn og átta
ennitungl, þar er gengu
fyr vineyjar víðri
valrauf, fjögur haufuð.

En er Óðinn spurði að góðir landskostir voru austur að Gylfa fór hann þannug og gerðu þeir Gylfi sætt sína því að Gylfi þóttist engi kraft til hafa til mótstöðu við Ásana. Mart áttust þeir Óðinn við og Gylfi í brögðum og sjónhverfingum og urðu Æsir jafnan ríkri.

Óðinn tók sér bústað við Löginn þar sem nú eru kallaðar fornu Sigtúnir og gerði þar mikið hof og blót eftir siðvenju Ásanna. Hann eignaðist þar lönd svo vítt sem hann lét heita Sigtúnir. Hann gaf bústaði hofgoðunum.

Njörður bjó í Nóatúnum en Freyr að Uppsölum, Heimdallur að Himinbjörgum, Þór á Þrúðvangi, Baldur á Breiðabliki. Öllum fékk hann þeim góða bólstaði.