Fara í innihald

Heimskringla/Ynglinga saga/6

Úr Wikiheimild
Ótitlað

Þá er Ása-Óðinn kom á Norðurlönd og með honum díar er það sagt með sannindum að þeir hófu og kenndu íþróttir þær er menn hafa lengi síðan með farið. Óðinn var göfgastur af öllum og af honum námu þeir allar íþróttirnar því að hann kunni fyrst allar og þó flestar.

En það er að segja fyrir hverja sök hann var svo mjög tignaður, þá báru þessir hlutir til. Hann var svo fagur og göfuglegur álitum þá er hann sat með sínum vinum að öllum hló hugur við. En þá er hann var í her þá sýndist hann grimmlegur sínum óvinum. En það bar til þess að hann kunni þær íþróttir að hann skipti litum og líkjum á hverja lund er hann vildi. Önnur var sú að hann talaði svo snjallt og slétt að öllum er á heyrðu þótti það eina satt. Mælti hann allt hendingum svo sem nú er það kveðið er skáldskapur heitir. Hann og hofgoðar hans heita ljóðasmiðir því að sú íþrótt hófst af þeim í Norðurlöndum. Óðinn kunni svo gera, að í orustu urðu óvinir hans blindir eða daufir eða óttafullir en vopn þeirra bitu eigi heldur en vendir en hans menn fóru brynjulausir og voru galnir sem hundar eða vargar, bitu í skjöldu sína, voru sterkir sem birnir eða griðungar. Þeir drápu mannfólkið en hvorki eldur né járn orti á þá. Það er kallaður berserksgangur.