Heimskringla/Ynglinga saga/8

Úr Wikiheimild

Óðinn setti lög í landi sínu, þau er gengið höfðu fyrr með Ásum. Svo setti hann að alla dauða menn skyldi brenna og bera á bál með þeim eign þeirra. Sagði hann svo að með þvílíkum auðæfum skyldi hver koma til Valhallar sem hann hafði á bál, þess skyldi hann og njóta er hann sjálfur hafði í jörð grafið. En öskuna skyldi bera út á sjá eða grafa niður í jörð en eftir göfga menn skyldi haug gera til minningar en eftir alla þá menn er nokkuð mannsmót var að skyldi reisa bautasteina og hélst sjá siður lengi síðan. Þá skyldi blóta í móti vetri til árs en að miðjum vetri blóta til gróðrar, hið þriðja að sumri. Það var sigurblót.

Um alla Svíþjóð guldu menn Óðni skatt, pening fyrir nef hvert, en hann skyldi verja land þeirra fyrir ófriði og blóta þeim til árs.

Njörður fékk konu þeirrar er Skaði hét. Hún vildi ekki við hann samfarar og giftist síðan Óðni. Áttu þau marga sonu. Einn þeirra hét Sæmingur.

Um hann orti Eyvindur skáldaspillir þetta:

Þann skjaldblætr
skattfæri gat
ása niðr
við járnviðju,
þá er þau mær
í Manheimum
skatna vinr
og Skaði byggðu.
Sævar beins
og sonu marga
öndurdís
við Óðni gat.

Til Sæmings taldi Hákon jarl hinn ríki langfeðgakyn sitt.

Þessa Svíþjóð kölluðu þeir Mannheima en hina miklu Svíþjóð kölluðu þeir Goðheima. Úr Goðheimum sögðu þeir mörg tíðindi.