Heimskringla/Ynglinga saga/9

Úr Wikiheimild

Óðinn varð sóttdauður í Svíþjóð. Og er hann var að kominn dauða lét hann marka sig geirsoddi og eignaði sér alla vopndauða menn. Sagði hann sig mundu fara í Goðheim og fagna þar vinum sínum. Nú hugðu Svíar að hann væri kominn í hinn forna Ásgarð og mundi þar lifa að eilífu. Hófst þá að nýju átrúnaður við Óðin og áheit. Oft þótti Svíum hann vitrast sér áður stórar orustur yrðu. Gaf hann þá sumum sigur en sumum bauð hann til sín. Þótti hvortveggi kostur góður. Óðinn var brenndur dauður og var sú brenna ger allvegleg. Það var trúa þeirra að því hærra sem reykinn lagði í loftið upp, að því háleitari væri sá í himninum er brennuna átti og þess auðgari er meira fé brann með honum.

Njörður af Nóatúnum gerðist þá valdsmaður yfir Svíum og hélt upp blótum. Hann kölluðu Svíar þá drottin sinn. Tók hann þá skattgjafar af þeim. Á hans dögum var friður allgóður og alls konar ár, svo mikið að Svíar trúðu því að Njörður réði fyrir ári og fyrir fésælu manna. Á hans dögum dóu flestir díar og voru allir brenndir og blótaðir síðan. Njörður varð sóttdauður. Lét hann og marka sig Óðni áður hann dó. Svíar brenndu hann og grétu allmjög yfir leiði hans.