Jómsvíkinga saga/1. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Jómsvíkinga saga höfundur óþekktur
Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

1. kafli[breyta]

Gormur hét konungur er réð fyrir Danmörku, er kallaður var hinn barnlausi; hann var ríkur konungur og vinsæll við sína menn. Hann hafði þá lengi fyrir landinu ráðið er þetta var tíðenda.

Tveir menn eru nefndir, þeir er voru í hirð konungsins; hét annar Hallvarður, en annar Hávarður.

Arnfinnur hét jarl er þá var í Saxlandi og ríki hélt af Karlamagnúsi konungi. Þeir voru góðir vinir og Gormur konungur; höfðu verið fyrr í víkingu báðir samt. Jarlinn átti systur fríða, og svo ber til, að hann lagði á hana þýðu meiri en skyldi; síðan gekk hún með barni, en það var þó mjög leynt. Hann sendi hana í burt með trúnaðarmönnum og bað þá eigi fyrr við skiljast en þeir vissi, hvað af yrði barninu. Svo gera þeir; koma fram þar sem konungurinn Gormur réð fyrir, nema stað við skóg þann er Myrkviður heitir og létu barnið koma undir viðarrætur, en þeir forðuðu sér í skóginn og dvöldust þar.

Þess er við getið, að það ber saman þetta sama haust, að Gormur konungur fór á skóg og hirð hans öll í allgóðu veðri, og fóru að dýrum, aldini og fuglum allan þann dag og skemmtu sér svo. En um kveldið, þá fer konungur heim og öll hirðin, nema þeir tveir bræður, Hallvarður og Hávarður; þeir dvöldust eftir á skóginum og gengu síðan víða um merkur að skemmta sér. En fyrir myrkurs sakir, þá fátu þeir eigi heim og snéru þá leið sinni til sjóvar og þóttust vita, að þeir mundu feta heim ef þeir fylgdi sjóvarströndu, þvíað borg konungsins var skammt frá sjó, er mörkin gekk fram allt að sjó.

Og þá er þeir gengu um sjóvarsanda og að melum nokkurum, þá heyra þeir barns grát, og gengu þagat og vissu eigi hví sæta mundi. Þeir fundu þar sveinbarn; það var lagt undir viðarrætur og knýttur knútur mikill í enninu á silkidregli er það hafði um höfuðið. Þar var í örtugar gull. Barnið var vafið í guðvefjar pelli. Þeir taka upp barnið og hafa heim með sér og koma svo heim, er konungur sat yfir drykkjuborðum og hirðin, og saka sig um það er þeir höfðu eigi gáð að fylgja konungi heim, en konungur svaraði og kvaðst þeim eigi reiður mundu fyrir þetta.

Og nú sögðu þeir konungi hvað gerzt hafði til tíðenda í för þeirra, en konungur beiddist að sjá sveininn og lét sér færa. Konunginum leizt vel á sveininn og mælti: „Sjá mun vera stórra manna og er betra fundinn en eigi,“ og lét síðan sveininn vatni ausa og nafn gefa og kallaði Knút. En það var fyrir þá sök er fingurgullið hafði knýtt verið í enni sveininum þá er hann fannst, og tók konungur þar nafn af, það er hann gaf sveininum. Hann fékk honum og fóstru þá er vel var fingið og kallaði sinn son og gerði vel við hann og unni honum mikið.

Og nú er á leið æfi konungsins Gorms og hann var gamall orðinn, þá tók hann sótt þá er honum vann að fullu. Og áður en hann andaðist, þá bauð hann þangað til sín vinum sínum og frændum er hann þóttist sjá, hversu fara mundi um hans mátt. Hann beiddi þá þess, að hann skyldi ráða hverjum sverja skyldi land og þegna eftir hans dag, og vildi hann til þess fá þeirra leyfi, en hann kvaðst Knúti gefa vilja allt sitt ríki og alla þá hluti er hann væri þá meiri maður en áður eftir sinn dag. Og nú fyrir sakir vinsælda hans og hann var sínum mönnum ástfólginn, þá játtu þeir þessu, að konungur skyldi ráða, og fór nú þetta fram.

Og eftir það lætur konungur líf sitt.

Nú tekur Knútur við landi og þegnum og öllu því ríki er Gormur hafði átt, og er vinsæll við sína menn.

Knútr fóstraði son Sigurðar orms í auga og gaf honum nafn sitt og kallaði Hörða-Knút. En son Hörða-Knúts var Gormur er kallaður var Gormur hinn gamli eða hinn ríki.