Jómsvíkinga saga/31. kafli
31. kafli
[breyta]Nú taka þeir Jómsvíkingar að búast við að öllu sem þeir mundi þá að þeir skyldi fara til hins harðasta bardaga og vilja vera við öllu um búnir, þótt Úlfur taki auðvellega á. Og er þeir eru albúnir, þá veita þeir atróður að voginum.
Það er sagt að Úlf grunar um nokkuð, að þeim myni fleiri sýnast skipin í voginum en svo sem hann hafði sagt þeim. Og þegar er þeir sá fram koma skipin, þá hleypur Úlfur útbyrðis og þegar á kaf og ætlar að leggjast til lands og vildi eigi bíða þess er þeir launaði honum sitt starf. Og er Vagn sér þetta, þá vill hann að vísu launa honum ettir verðleikum; grípur upp síðan eitt spjót og sendir eftir honum, og kemur spjótið beint á hann miðjan, og lézt hann þar.
Nú róa þeir Sigvaldi og allir Jómsvíkingar inn í voginn og sjá þá að skipaður var vogurinn allt frá þeim í brott af herskipum. Þeir fylkja nú þegar liði sínu öllu. En í öðrum stað, þá sá þeir jarlarnir, Hákon og synir hans, hvar þeir eru komnir Jómsvíkingar, og taka þegar skip sín úr tengslum og ætla til hverir hverjum skulu í móti berjast.
En svo er hér frá sagt að í austur horfi botninn á Hjörungavogi en mynnið í vestur. Þar standa og út á voginum steinar þrír þeir er heita Hjörungar, og er einn þeirra nokkuru mestur, og er við þá steina vogurinn kenndur. En sker liggur inn á voginum miðjum, og er jafnlangt til lands á alla vega frá skerinu, bæði inn á vogsbotninn og út tveim megin gagnvert. En ey liggur sú fyrir norðan voginn, er heitir Prímsigð, en Harund liggur fyrir sunnan voginn, og þar inn frá er Harundarfjörður.
Nú er frá því að segja að þeir Jómsvíkingar skipa þannog í fylkingar skipum sínum sem nú mun hér sagt: Sigvaldi leggur skip sitt í miðja fylkingina, en Þorkell hávi bróðir hans leggur þar skip sitt næst honum. En Búi digri og Sigurður kápa bróðir hans, þeir leggja skip sín út í fylkingararminn annan, en Vagn Ákason og Björn hinn brezki skipa annan arm.
En þeir Hákon jarl ætla fyrir sér í öðru lagi, hverir berjast skulu í móti þessum köppum af þeirra liði. Og skipa þeir svo til í flestum stöðum að þrír voru ætlaðir í móti einum þeirra. Nú munu vér þar fyrst til taka að segja frá þeirra tilskipan, að ætla Svein Hákonarson í móti Sigvalda, en þrem mönnum var skipað í móti Þorkatli háva, bróður Sigvalda, og var þar Yrja-Skeggi einn, en annar Sigurður steiklingur norðan af Hálogalandi, þriði Þórir er kallaður var hjörtur. Ætlaðir voru enn tveir menninir með Sveini Hákonarsyni í móti Sigvalda, þeir er eigi var áður getið: Guðbrandur úr Dölum og Styrkár af Gimsum.
Í móti Búa var ætlaður Þorkell miðlangur og annar Hallsteinn kerlingabani af Fjölum - og hinn þriði Þorkell leira; hann var lendur maður jarls. En á mót Sigurði kápu bróður Búa voru þeir feðgar Ármóður úr Önundarfirði og Árni son hans. En í mót Vagni Ákasyni var ætlaður Eiríkur jarl Hákonarson og annar Erlingur af Skugga. Hinn þriði Ögmundur hvíti, og sá hinn sami átti að gjalda Vagni handarhöggið sem fyrr var sagt.
Á mót Birni hinum brezka var ætlaður Einar litli lendur maður, annar Hávarður uppsjá, þriði Hallvarður af Flyðrunesi bróðir Hávarðar. En Hákon sjálfur skal leika laus við svo, og vera öngum ætlaður einkum í móti, og skal hann styðja allar saman fylkingarnar og ráða fyrir liðinu.
Það er frá sagt að fjórir menn íslenzkir hafi verið með þeim feðgum Hákoni og Eiríki, þeir er nefndir eru. Þar er til nefndur Einar er þá var kallaður Skjaldmeyjar-Einar; hann var skáld jarls og hafði þá lítinn sóma af jarli hjá því sem verið hafði. Einar hafði það mjög í máli að hann mundi hlaupa úr flokki jarlsins Hákonar og til Sigvalda, og síðan kveður hann vísu:
- Gerða eg veig of virða
- víðis illrar tíðar,
- það vann eg meðan aðrir,
- ör Váfaðar, sváfu.
- Komkað eg þess þar er þótti
- þingseturs fé betra,
- meiður sparir hodd við hróðri,
- hverr, en skáldið verra.
- enda skal eg að vísu til Sigvalda,“ segir hann; „eigi mun hann minna sóma gera til mín en jarl gerir.“
Hann hleypur síðan utan af skipi Hákonar jarls og á bryggjurnar og gerir á sér brautfús sem mestan, en hleypur eigi skelegglega í brott og vill sjá hvernog jarl brygði við. Og er hann kömur á bryggjurnar, þá verður honum enn vísa á munni og kveður til Sigvalda:
- Sækjum jarl þanns auka
- úlfs verð þorir sverðum,
- hlöðum við borð á barða
- baugskjöldum Sigvalda;
- drepur eigi sá sveigir
- sárlinns er gram finnum,
- rönd berum út á andra
- Endils, við mér hendi.
Og nú finnur Hákon jarl að Skjaldmeyjar-Einar er nú í brottbúningi, og nú kallar jarl á hann og biður hann ganga þangað til máls við sig, og hann gerir svo. Síðan tekur jarl skálir góðar, þær er hann átti; þær voru görvar af brenndu silfri og gylldar allar. En þar fylgdu tvö met, annað af gulli, en annað af silfri. Á hvorutveggju metinu var gert sem væri líkneskja, og hétu það hlótar, en það voru reyndar hlutir sem mönnum var títt að hafa, og fylgdi þessu náttúra mikil, og til þess alls er jarli þótti skipta, þá hafði hann þessa hluti. Jarl var því vanur að leggja hluti þessa í skálirnar og kvað á hvað hvor skyldi merkja fyrir honum, og ávallt er vel gingu hlutir og sá kom upp er hann vildi, þá var sá ókyrr hluturinn í skálinni er það merkti er hann vildi að yrði og breylti sá hluturinn nokkuð svo í skálinni, að glamm það varð af. En þessar gersimar gefur jarl Einari, og verður hann við þetta kátur og glaður og sezt nú aftur að brottförinni og fer ekki á fund Sigvalda.
Og af þessu fær Einar nafn, og er síðan kallaður Einar skálaglamm.
Sá maður var þar annar íslenzkur er hét Vigfús son Víga-Glúms, þriði Þórður er kallaður var örvahönd, fjórði Þorleifur er kallaður var skúma; hann var son Þorkels hins auðga vestan úr Dýrafirði úr Alviðru.
Það er sagt frá Þorleifi að hann fær sér í skógi klumbu eina mikla eða hálfróteldi það, og fer síðan þangað er matsveinar hafa elda og matbúa, og svíður klumbuna utan alla nokkuð svo, og hefir hana í hendi sér og fer á fund Eiríks Hákonarsonar, - og gengar Eiríkur þá ofan til skips, og er þar þá í för með honum Einar skálaglamm, og þá slæst Þorleifur í för með þeim. Og er Eiríkur sér hann, þá mælti hann: „Hvað skal þér, Þorleifur,“ segir hann, „klumba sú hin mikla er þú hefir í hendi?“ En Þorleifur svarar honum á þá leið:
- Hefi eg í hendi
- til höfuðs gerfa
- beinbrot Búa,
- böl Sigvalda,
- vá víkinga,
- vörn Hákonar;
- sjá skal vera
- ef vér lifum
- eikikylfa
- óþörf Dönum.
Og nú fara þeir þar á skip fjórir íslenzkir menn með Eiríki: Þorleifur skúma og Einar skálaglamm, Vigfús Vígaglúmsson og Þórður örvahönd.