Jómsvíkinga saga/4. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Jómsvíkinga saga höfundur óþekktur
Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969


4. kafli[breyta]

Sá maður er nefndur til sögunnar er Hákon hét og var son Sigurðar Hlaðajarls; hann átti heimili í Noregi og svo kynferði. Hann þóttist eiga ríki í Noregi að vera jarl yfir fjórum fylkjum. Og í þenna tíma réð fyrir Noregi Haraldur gráfeldur og móðir hans, Gunnhildur, er kölluð var konungamóðir, og létu þau Hákon eigi ráða eða ná öllu ríki sínu, en hann vildi eigi hafa nema hann réði öllu, og fer hann fyrir það í burtu úr landi með miklu liði, og hafði hann tíu skip úr Noregi. Síðan lagðist hann í víking og herjaði víða of sumarið. En um haustið þá kom hann í Danmörk með skipum sínum og liði og mælti til vinfengis við Danakonung og beiddist að hafa þar friðland í hans ríki og vera þar um veturinn. Haraldur konungur tók því einkar vel og bauð honum til hirðvistar með sér við hálft hundrað manna. Hákon þekktist það; fór hann til konungs með þetta lið, en vistaði annað lið sitt þar í Danmörk.

Það er og frá sagt, að Knútur Gormsson átti son eftir sig, þann er Haraldur hét og var kallaður Gull-Haraldur. Hann kom eigi mörgum náttum síðar við Danmörk og hafði tíu skip. Hann hafði herjað víða um lönd og fingið mikið fé og ætlaði sér vist um veturinn með Haraldi Gormssyni, frænda sínum, og hafa þar friðland.

Haraldur konungur tekur vel við frænda sínum og nafna, býður honum heim til sín við jafnmarga menn sem Hákon hafði áður þangað haft, og það sama þekktist Haraldur.

Og eru þeir Hákon og Gull-Haraldur þar báðir þann vetur í allmikilli virðingu af Danakonungi.

En þá er jól komu um veturinn, þá var þar enn meir vönduð veizla en þess í milli, bæði fyrir drykkjar sakir og annarra tilfanga og fjölmennis er þá var enn þangað boðið að jólum.

Frá því er sagt, að það var haft að ölmálum og teiti manna á milli, hvort nokkur konungur á norðurlönd mundi meiri rausn hafa í sínum veizlum, og stórmennsku, en Haraldur Gormsson, og urðu allir á eitt sáttir, að engi konungur væri slíkur of alla norðurhálfu heims og þar allt sem dönsk tunga gingi.

En maður var sá þar innan hirðar er ekki fannst um og átti öngan hlut í hjali þessu. En þar var Hákon jarl Sigurðarson. En svo er sem mælt er, að mörg eru konungs eyru, og var konunginum sagt brátt, að Hákon hefði ekki til lagt honum til virðingar, þá er menn urðu á eitt sáttir.

En eftir það þá er náttin er af liðin, þá heimti Haraldur Gormsson á mál Hákon jarl og Gull-Harald, og gingu þeir þrír á málstefnu.

Og er þeir voru þar komnir, þá skorar konungur til við Hákon, hvort hann hefði það mælt, að hann væri eigi mestur konungur á norðurlöndum, fyrir því að honum var svo sagt.

Jarl svarar: „Hvorki gerða eg að, herra,“ segir hann, „þá er aðrir áköfuðust mest á þetta, og átta eg í öngan hlut, og þykjumst eg saklaus um þetta.“

„Þá vil eg þetta vita,“ segir konungur, „hvattú færir til þess er þér þykir þetta eigi sem öðrum mönnum.“

„Vant verður oss, herra,“ segir jarl, „of slíkt að ræða; en aldri má mér sá þykja meiri maður er annar situr yfir sköttum hans, og hafi svo lengi fram farið, og hafi sá eigi ríki til að heimta, er á.“

Þá þagnaði konungur nokkura stund og tekur til orða og mælti: „Eg hefi nú íhugað, attú hefir satt mælt og fundið til um þetta. En eigi þarf þig að kalla hinn vitrasta jarl og hinn mesta minn vin, ef eigi fær þú það ráð er dugi við Harald gráfeld Gunnhildarson, þvíað eg veit attú mælir þetta til hans.“

Jarl segir: „Þvíað einu eykst þín virðing við heimboð þetta við mig og Gull-Harald frænda þinn, ef þú þykir nú meiri konungur héðan frá en áður, og tökum nú allir samt það ráð er oss sýnist efnilegt og allra vor vegur aukist við.“

„Settu nú ráðið,“ segir konungur, „og neyt nú þess er þú ert ráðugur maður kallaður og vitur.“

Hákon segir: „Ef það skal mitt vera að setja ráðið, þá er nú hugað,“ segir hann. „Þá skal senda menn úr landi á einu skipi, svo að það sé vel skipað, til fundar við Harald gráfeld, og segið svo að þér bjóðið honum hingað með fullri virðing og eigi með miklu liði til vegsemdar boðs, og lát svo segja honum, að það er áður stendur á meðal ykkars máls meguð ið sjálfir sættast á, þá er ið finnist. Það skaltu og fylgja láta orðsendingunni,“ segir hann, „attú ætlar að biðja Gunnhildar móður hans, en eg kann skaplyndi hennar að því, þótt hún sé nakkvað aldri orpin, að hún mun þá mesta stund á leggja að fýsa son sinn fararinnar, ef þetta liggur við, þvíað lengi hefir hún þótt nökkvat vergjörn. En vér skulum vera í öllum viðurbúnaði með þér, en þú skalt það til leggja með Gull-Haraldi frænda þínum, attú skalt honum unna hálfs Noregs, en hálfs mér, ef við getum Harald gráfeld af lífi tekinn, svo attú sér eigi við með þína menn. En eg heit þér því í móti, og við Gull-Haraldur báðir, attú skalt þá skatta hafa af Noregi sem nú mun eg til inna, að við munum út reiða ef okkart verður landið: hundrað marka gulls og sex tigu hauka. Þá miklumst vér allir af, ef að þessu gingi, sem nú hefi eg ráð til gefið.“

Haraldur konungur segir: „Þetta ráð sýnist mér eigi óvænlegt, og skal þetta vera og fram ganga, ef svo vildi til takast.“

Gull-Haraldur lét sér og þetta líka forkunnar vel, sem nú var til skipað, og nú gingu þeir af þessi málstefnu.

Og lét Haraldur konungur nú skip búa vonu bráðara. Það var snekkja ein mikil. Þar lét hann á vera sex tigu manna. Og síðan fóru þeir leiðar sinnar þá er þeir voru til þess búnir, og ferst þeim vel, og hitta þeir Harald konung gráfeld í Noregi og báru upp örendi þessi fyrir hann, sem fyrir þá voru lögð, og gátu fyrir Gunnhildi um bónorðið, að Haraldur konungur Gormsson mundi biðja hennar. Og er hún heyrði þetta, þá fór sem hann gat, að hún fýsti Harald son sinn ferðarinnar, „og er einsætt,“ segir hún, „að dvala ekki förinni, þvíað eg mun hafa landráð meðan, og vættir mig að það sé nokkur hlít slíka stund. En skunda að förinni sem föng eru á.“

Eftir það fara sendimenn Haralds Gormssonar aftur, og ferst þeim vel, og segja konungi að þangað er von Haralds gráfeldar.